„Hvar er frumritið?“

Haraldur Bjarnason (t.h.), framkvæmdastjóri Auðkennis, og Óskar Jósefsson, stjórnarformaður félagsins …
Haraldur Bjarnason (t.h.), framkvæmdastjóri Auðkennis, og Óskar Jósefsson, stjórnarformaður félagsins með rafrænt eintak ársskýrslunnar Ljósmynd/Arnar Halldórsson

Þjónustuaðilar þurfa í auknum mæli að taka upp og nýta sér rafrænar undirskriftir og nota rafræn skilríki. Auk þess þarf að vera hægt að nota skilríkin í farsímum og spjaldtölvum. Þetta segir Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis ehf., að séu helstu áskoranir sem fyrirtækið og rafræna skilríkjakerfið standi frammi fyrir á næstunni.

Sparnaður með rafrænum skilríkjum

Haraldur hélt fyrirlestur á upplýsingatækniráðstefnu Advania á föstudaginn þar sem hann fór yfir stöðu mála með skilríkin og næstu skref. Í stuttri yfirferð benti hann á það hversu mikið fyrirtæki og stofnanir geti sparað sér með að innleiða kerfið, en hann telur að sýslumannsembættin geti sparað sér allt að 70 til 80 milljónir með því að nota rafrænar undirskriftir við þinglýsingar. Þess utan myndi nýja kerfið stórminnka bið- og afgreiðslutíma. Sagði hann líklegt að afgreiðslutími hjá Íbúðalánasjóði gæti farið úr 21 degi niður í 7 daga með þessari breytingu.

„Stofnkostnaður er oft hindrun fyrir smærri fyrirtæki, en það er hugarfarið sem skiptir öllu máli,“ sagði Haraldur, en hann telur að upphafskostnaður muni fljótlega borga sig upp, auk þess sem fyrirtæki geti dregið saman í pappírseyðslu, skjalageymslu, kostnaði við afgreiðslu og ferðalög. Sem dæmi nefndi hann að á aðalfundi Auðkennis á þessu ári hafi allt verið á tölvutæku formi og enginn pappír notaður. 

Með lögum bæði hérlendis og í Evrópu er aðilum heimilt að skila samningum með rafrænni undirskrift til opinberra aðila og segir Haraldur að þegar þetta venjist sé hagkvæmnin mikil. Helsta vandamálið varðandi aðalfundinn hafi verið þegar endurskoðandinn hafi spurt „hvar er frumritið?“, en slíkt hugtak á ekki við um rafræn skjöl þar sem heldur er talað um að öll eintökin séu samrit.

Lykill að persónulegum upplýsingum

Hingað til þekkja flestir rafræn skilríki aðallega sem örgjörva á debetkorti sem er ein af þremur leiðum til að tengjast við netbanka. Kerfið býður þó upp á mun fleiri möguleika og segir Haraldur að fjölmargir þjónustuaðilar bjóði upp á innskráningu á vefi sína með skilríkjunum. Einnig sé hægt að skila upplýsingum til ríkisskattstjóra sem séu undirritaðar rafrænt. Hann sér svo fyrir sér að á komandi árum verði í auknum mæli notast við rafræn skilríki til að sækja t.d. málaskrá hjá lögreglu og aðrar persónulegar upplýsingar sem hingað til hefur þurft að sækja beint á staðinn. Segir hann að í framtíðinni megi t.d. líta til þess að heilbrigðisgögn einstaklinga verði aðgengileg með þessari leið.

Hægt að gera handhægara

Annað atriði sem hefur haft neikvæð áhrif á suma notendur rafrænna skilríkja er stærðin, en margir hafa kvartað undan því að þurfa alltaf að vera með lesara með sér til að komast í netbanka. Þetta sé mun óþægilegri leið en að hafa gamla auðkennislykilinn á lyklakippunni. Haraldur sýndi þó að auðvelt er að hafa þetta lítið, en hann var með USB-lykil á stærð við auðkennislykilinn sem gat lesið rafræna örgjörvann. Þessu náði hann reyndar með því að klippa örgjörvann af kortinu, þannig að hann væri ekki mikið stærri en símakort.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK