Ítrekuð gjaldþrot Metroborgara

Síðustu tveir eigendur Metro staðanna hafa endað í gjaldþroti. Heildarskuldir …
Síðustu tveir eigendur Metro staðanna hafa endað í gjaldþroti. Heildarskuldir félaganna nema um hálfum milljarði.

Fyrirtækið Líf og heilsa ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 11. janúar síðastliðinn. Félagið hefur rekið skyndibitastaðina Metro síðan árið 2010 þegar fyrri eigandi, Lyst ehf., var úrskurðað gjaldþrota. Jón Garðar Ögmundsson, framkvæmdastjóri Lífs og heilsu og fyrrverandi eigandi Lystar segir heildarskuldir Lífs og heilsu nema um 100 milljónum, en að opinberar skuldir hafi fyrst og fremst gert reksturinn erfiðan. Þá segir hann að eignir félagsins muni duga upp í skuldir þess.

Jón Garðar segir í samtali við mbl.is að Líf og heilsa hafi ekki náð að semja við Tollstjóra varðandi opinber gjöld á þeim hraða sem þurfti og því hafi ekki verið um annað að ræða en að félagið færi í þrot. Hann segir þó að söluverð félagsins muni duga upp í allar skuldir, en heildarskuldir félagsins nema að sögn Jóns Garðars um 100 milljónum. „Félagið mun gera upp allar sínar skuldir, það eru til peningar fyrir því,“ segir Jón Garðar.

Segir mikla peninga á leið inn í félagið

Spurður um nýja kaupendur segir Jón Garðar að það séu aðilar sem áttu mikið undir að reksturinn gengi áfram, meðal annars með að hafa lánað félaginu. Hann vildi þó ekki gefa upp hverjir það væru, en sagði að miklir peningar væru á leið inn í félagið. Þetta yrði allt gert ljóst á komandi vikum.

Nýr rekstraraðili Metro er félag að nafni M-Veitingar ehf., en Jón Heiðar Pálsson er eigandi og stjórnarmaður þess. Var félaginu lagt til 500 þúsund við stofnun, en að sögn Jóns Garðars þyrfti söluverðið að hlaupa á nokkrum tugum milljóna til að hægt yrði að gera upp allar skuldir. Ekki er ljóst hver mun koma með féð í reksturinn, en Jón Heiðar vísaði öllum spurningum til Jóns Garðars.

Töluverður fjöldi Íslendinga keypti tilboð af Metro í gegnum hópkaupsvefi, en nokkrir tugir þúsunda tilboða voru seldir á sínum tíma. Jón Garðar segir að ekkert slíkt sé útistandandi ennþá og þetta þrot muni því ekki hafa áhrif á þá. Hann segir einnig að starfsmenn muni færast yfir til nýs félags og að gert verði upp að fullu við alla starfsmenn.

Hátt í 400 milljóna króna gjaldþrot

Lyst ehf., sem áður rak McDonalds-veitingastaðina hérlendis, en breytti svo nafninu í Metro, var mjög skuldugt félag. Það var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010, en skiptalok hafa enn ekki átt sér stað. Samkvæmt heimildum mbl.is eru heildarkröfur í félagið nálægt 400 milljónum og ekki er útlit fyrir að mikið fáist upp í kröfurnar. Nú er ljóst að rekstraraðilinn sem keypti reksturinn á sínum tíma hefur einnig lagt upp laupana, með töluverðar skuldir, þó að fullsnemmt sé að segja til um hvort skuldir verði umfram eignir.

Þegar Lyst ehf. seldi reksturinn yfir til Lífs og heilsu ehf. í júní árið 2010 sagði Jón Garðar í samtali við morgunblaðið að hann ætti ekki von á öðru en að allar skuldir félagsins yrðu greiddar upp að fullu. Samkvæmt þeim heimildum sem mbl.is hefur verður að teljast mjög ólíklegt að það standist, enda litlar eignir til í félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK