Jón von Tetzchner tengir saman Ameríku og Ísland

Jon von Tetzchner hefur verið mjög áhugasamur um íslenskt frumkvöðlastarf ...
Jon von Tetzchner hefur verið mjög áhugasamur um íslenskt frumkvöðlastarf síðustu árin. Myndin er tekin í Innovation house, frumkvöðlasetrinu sem hann opnaði á Eiðistorgi. mbl.is/Rósa Braga

Jón von Tetzchner, stofnandi Opera Software er að opna nýtt frumkvöðlasetur nálægt Boston í Bandaríkjunum þar sem íslenskum og norskum sprotafyrirtækjum verður gert kleift að hafa viðdvöl ætli þau sér að sækja á bandarískan markað eða vilja komast í annað umhverfi en heima fyrir. Um er að ræða gamalt hótel í bænum Gloucester í Massachusetts, en það er nokkuð ólíkt flestum frumkvöðlasetrum sem eru í miðju hátækniborga. 

Tetzchner er orðinn Íslendingum kunnur eftir að hafa komið sterkur inn í nýsköpunarumhverfið hér á síðustu árum. Hann efnaðist vel á uppbyggingu Opera Software á sínum tíma, en hefur síðan fjárfest í mörgum fyrirtækjum hér heima og erlendis. Meðal annars má nefna OZ, DoHop, SmartMedia og Hringdu. Þá kom hann upp frumkvöðasetrinu Innovation house á Eiðistorgi á síðasta ári, en það er nú orðið aðsetur fjölda sprotafyrirtækja í tæknigeiranum.

Ráðherra heimsótti setrið

Nýja frumkvöðlasetrið í Gloucester er með 27 herbergjum, en þar af eru 18 svefnherbergi. Anne Stavnes, aðstoðarkona Tetzchners sér um uppbygginguna í Bandaríkjunum eins og hún gerði hér á landi, en hún segir að þótt eitt fyrirtæki hafi nú þegar flutt inn og nokkrir íslenskir frumkvöðlar komið í heimsókn, þá verði húsið ekki formlega opnað fyrr en eftir sumarið. Í síðustu viku kíkti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í heimsókn í setrið ásamt borgarstjóra Gloucester. Anne segir að það sé því nóg að gera þrátt fyrir að formleg starfsemi hafi ekki hafist ennþá.

Eins og sjá má af myndum er húsið í gömlum stíl, en það var upphaflega byggt árið 1880, að sögn Anne. Hún segir að það sem geri það frábrugðið öðrum svipuðum stöðum sé að þarna sé t.d. arin og þá sé innréttingin frá fyrri tímum. Samkvæmt frétt á vef Boston Globe keypti Tetzchner eignina á 1,09 milljón dali, en það jafngildir um 125 milljónum íslenskra króna. 

Tetzchner býr sjálfur í bænum

Tetzchner býr sjálfur í bænum, en Anne segir að hún skilji vel afhverju hann hafi valið bæinn umfram aðra staði í Bandaríkjunum til að setjast að í. Þannig sé bærinn frekar lítill, með aðeins um 50 þúsund íbúm þegar aðliggjandi bæir séu taldir með og minni um margt á Reykjavík. Hún nefnir sem dæmi að mikið líf sé í kringum miðbæinn og mikil umferð í kringum veitingastaði og krár, bæði af ferðamönnum og heimafólki. Þá taki hvalaskoðunarfyrirtæki á móti manni við höfnina og andrúmsloftið sé ekki ólíkt því sem menn þekki frá Íslandi.

Eins og fyrr segir er húsið sjálft nokkuð stórt, en Anne segir að þau leggi áherslu á að bjóða íslenskum og norskum frumkvöðlafyrirtækjum upp á aðstöðu þegar þau komi vetur um haf og ætlunin sé að meirihluti aðstöðunnar verði undir gesti sem komi í styttri tíma. Þó verði líka horft til sprotafyrirtækja á svæðinu og nú þegar hafi eitt fyrirtæki sem vinni að hönnun samfélagsmiðils komið sér fyrir í húsinu. Anne segir að ef viðtökurnar verði svipaðar og á Eiðistorgi muni ekki líða á löngu áður en húsið fyllist.

Frumkvöðlahúsið var byggt árið 1880 og með 27 herbergjum.
Frumkvöðlahúsið var byggt árið 1880 og með 27 herbergjum.
Anne Stavnes ásamt Tryggva Þorgeirssyni, lækni, sem er einnig forstjóri ...
Anne Stavnes ásamt Tryggva Þorgeirssyni, lækni, sem er einnig forstjóri og stofnandi Goodlifeme.com sprotafyrirtækisins.
Fundarherbergi með gömlu yfirbragði, en meðal annars má finna arin ...
Fundarherbergi með gömlu yfirbragði, en meðal annars má finna arin í herberginu.
Húsið var upphaflega byggt árið 1880 og er í gömlum ...
Húsið var upphaflega byggt árið 1880 og er í gömlum stíl. Þar eru samtals 27 herbergi, en 18 þeirra eru svefnherbergi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kíkti í heimsókn nýlega.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kíkti í heimsókn nýlega.
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir