Vinna að stofnun stórs nýsköpunarsjóðs

Haukur Skúlason, forstöðumaður framtaksfjárfestinga Íslandssjóða og Bala Kamallakharan, fjárfestir og …
Haukur Skúlason, forstöðumaður framtaksfjárfestinga Íslandssjóða og Bala Kamallakharan, fjárfestir og athafnamaður. KRISTINN INGVARSSON

Bala Kamallakharan og Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, hafa tekið höndum saman við að stofna nýjan fjárfestingasjóð fyrir sprotafyrirtæki þar sem horft er til þess að koma snemma inn í uppbyggingarferli nýrra fyrirtækja og fjárfesta til um þriggja ára. Stefnt er að því að sjóðurinn verði um fjórir milljarðar, en meðal þeirra sem fjárfesta í sjóðnum eru tveir þekktir fjárfestar úr sprotaheiminum í Bandaríkjunum. Fyrst og fremst verður horft til þekkingarfyrirtækja sem geta selt vöru og þjónustu á alþjóðamarkaði. 

Fylgja fyrirtækjunum úr hlaði

Hugmyndin er að sjóðurinn sé ekki bara fjárfestingasjóður, heldur muni bæði Bala og Haukur Skúlason, forstöðumaður framtaksfjárfestinga Íslandssjóða, koma að ráðgjöf og uppbyggingu fyrirtækjanna. Bala segir í samtali við mbl.is að hann hafi ástundað svipað fyrirkomulag með Clöru, íslensku nýsköpunarfyrirtæki sem Bala fjárfesti í og var selt fyrir meira en einn milljarð króna til erlendra fjárfesta í fyrra. Þá hafi hann setið allavega sex klukkustundir á viku með stjórnendum fyrirtækisins og farið yfir markaðsmál, ráðningar og almenna uppbyggingu fyrirtækisins. Þannig hafi hann nýtt reynslu sína og miðlað henni áfram til fyrirtækisins.

Íslandssjóðir munu einnig setja fjármuni í sjóðinn, samhliða því sem Haukur mun vinna að ýmsum málum sem tengjast fjármögnun félaganna, utanumhaldi um rekstur og almennri ráðgjöf við fyrirtækin. Sjálfur kom Haukur að stofnun fjárfestingasjóðsins Frumtaks á sínum tíma og hefur því þó nokkra reynslu úr þessum geira.

Lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestar

Ekki er búið að klára fjármögnun sjóðsins, en Bala segir að síðustu mánuði hafi hugmyndin verið kynnt fyrir fjárfestum hér innanlands sem utan og að margir hafi skuldbundið sig við verkefnið. Þar sé meðal annars um lífeyrissjóði að ræða, en einnig hafi tveir þekktir fjárfestar erlendis frá lagt til eigin fjármuni. Það eru þeir Brad Feld og Brad Burnham, sem hafa mikla reynslu úr sprotageiranum í Bandaríkjunum og voru t.d. gestir á Startup Iceland ráðstefnunni í fyrra.

Bala segir að öll sprotafyrirtæki eigi við sama vandamálið að stríða á fyrstu stigum og það sé skortur á fjármagni. Nýja sjóðnum sé ætlað að koma til móts við þá þörf, en hann segir að hér á landi hafi verið vöntun á sjóð sem fjárfesti í hugmyndum og hugviti á snemma á uppbyggingatímabilinu og aðstoði þau áfram gegnum erfiðasta kaflann.

Fjárfestar byrjaðir að horfa hingað

Með aðkomu Bandaríkjamannanna segir Bala að betri tenging fáist við erlenda fjárfesta og jafnvel til sölu seinna meir. Segir hann að með velgengni fyrirtækja á borð við Plain vanilla, Meniga og Clöru hafi fjárfestingasjóðir byrjað að horfa hingað til lands. „Þegar menn sáu að Plain Vanilla kom frá Íslandi spurðu þeir sig af hverju þeir hefðu ekki fjárfest fyrr í þeim hér á landi,“ segir Bala.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK