Samningur um kísilver í Helguvík

Við undirritunina í dag.
Við undirritunina í dag. Ljósmynd/Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Í dag undirritaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. vegna fyrirhugaðrar kísilverksmiðju félagsins í Helguvík á Reykjanesi. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á þessu ári og miðað er við að verksmiðjan verði komin í fullan rekstur í byrjun árs 2017.  

Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), að því er segir í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Áætluð ársframleiðslugeta verður 54.000 tonn af kísilmálmi og orkuþörfin er um 87 MW. Áformað er að framleiðslan verði seld á erlendum mörkuðum sem og þær aukaafurðir sem myndast við framleiðsluna. Heildarfjárfesting verkefnisins er um 252 milljónir Bandaríkjadala, eða um 38 milljarðar íslenska króna miðað við núverandi gengi.

Félagið er í eigu tveggja íslenskra félaga, Northsil ehf (69%) og Strokkur Energy ehf. (31%). Gert er ráð fyrir að yfir 100 manns starfi við uppbyggingu á verksmiðjunni og að 150 starfsmenn verði ráðnir til starfa við framleiðsluna þegar rekstur er hafinn.

Verkefni þetta á sér langan aðdraganda og má nefna að í lok árs 2010 var gerður fjárfestingarsamningur við sama félag vegna sams konar verkefnis í Þorlákshöfn, en sá samningur kom aldrei til framkvæmda. Eftir að hafa skoðað ýmsa staðsetningarmöguleika var loks tekin ákvörðun um að byggja kísilverksmiðjuna upp í Helguvík og hefur verið unnið að undirbúningi undanfarna mánuði í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu, segir í tilkynningunni.

Fyrr í vikunni undirrituðu Thorsil ehf. og Hunter Douglas Metals í Bandaríkjunum samning um sölu og dreifingu á 24.000 tonnum af kísilmálmi á ári í átta ár. Thorsil mun hefja afhendingu á málminum árið 2017. Verðmæti viðskiptanna, sem samningurinn nær til, er um 67 milljarðar króna. Thorsil er jafnframt með í undirbúningi langtímasamninga við fleiri erlenda stórnotendur á kísilmálmi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK