Róbert Wessman stefnir Bjarna

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, hefur stefnt Bjarna Ólafssyni, ritstjóra Viðskiptablaðsins vegna ummæla sem birt voru á forsíðu Viðskiptablaðsins 28. ágúst síðastliðinn. Þar var greint frá stefnu athafnamannsins Björgólfs Thor Björgólfssonar á hendur Róberti og kæru hans til sérstaks saksóknara.

Þetta kemur fram á vefsvæði Viðskiptablaðsins. Þar segir einnig að blaðið standi við fréttaflutning sinn og það áréttað að Róberti hafi við vinnslu fréttarinnar verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Uppfært klukkan 11.07

Róbert hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna stefnunnar. Hún er eftirfarandi:

„Málfrelsi er ein af mikilvægustu stoðum í okkar samfélagi og sjálfsögð mannréttindi. Jafnframt er upplýst og vönduð umfjöllun í fjölmiðlum hverju samfélagi mikilvæg. Áríðandi er að fjallað sé um fólk af heiðarleika og sanngirni. Mistök geta verið afdrifarík fyrir þann sem ranglega er um fjallað.

Ég hef oft verið umfjöllunarefni fjölmiðla í starfi mínu sem forstjóri undanfarin 15 ár. Umfjöllunin hefur yfirleitt verið vel unnin og af sanngirni.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins þann 28. ágúst síðastliðin er þó á annan veg en þar er ég sakaður um alvarlegt brot í starfi. Það er ekki bara fjölskylda,  vinir og  samstarfsmenn á Íslandi sem lesa umfjöllun um mig sem birtist hér á landi. Ég starfa í alþjóðlegu umhverfi þar sem samstarfsaðilar og keppinautar geta hæglega haft aðgang að slíkri umfjöllun.

Viðskiptablaðið tók ákvörðun um að birta umfjöllun um stefnu Björgólfs Thor Björgólfssonar á hendur mér áður en málið hafði verið þingfest og ég fengið gögn stefnanda í hendur.  Þetta gerir blaðið þrátt fyrir að blaðamaður og ritstjóri hafi báðir verið upplýstir í samskiptum við samstarfsmenn mína að málatilbúnaður sá sem í stefnunni birtist væri algjörlega tilhæfulaus.  Það hefði verið hægðarleikur fyrir blaðið að sannreyna að stefnan var ekki byggð á traustum grunni.   Blaðið gerir þó meira en að endurflytja ósannar ásakanir sem í stefnunni birtust því á forsíðu er fullyrt að ég sé sakaður um að hafa dregið mér fé sem forstjóri Actavis. Þeir sem lesa stefnuna sjá að enga slíka ásökun er að finna í stefnunni. Fyrirsögnin er ósönn og verulega meiðandi.

Ég reikna með að markmið stefnunnar hafi verið að skapa umfjöllun sem kæmi illa við mig.  Ég hef því séð mig knúinn til þess að höfða meiðyrðamál á hendur ritstjóra Viðskiptablaðsins, þar sem m.a. verður krafist að hin ósanna fyrirsögn blaðsins verði ómerkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK