Verkfræðistofur sameinast

Verkfræðistofurnar VSI, öryggishönnun og ráðgjöf og VJI, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar, …
Verkfræðistofurnar VSI, öryggishönnun og ráðgjöf og VJI, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar, hafa sameinast. mbl.is/Ómar

Verkfræðistofurnar VSI, öryggishönnun og ráðgjöf og VJI, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar, hafa sameinast í nýtt þekkingarfyrirtæki sem mun ásamt almennri verkfræðiþjónustu bjóða viðskiptavinum sínum víðtæka rekstrarráðgjöf ásamt ráðgjöf á sviði öryggismála og vinnuverndar.

Allir  starfsmenn fyrirtækjanna, 34 frá VJI og 9 frá VSI munu vinna hjá sameinaða fyrirtækinu og allir samningar og skuldbindingar við viðskiptavini verða með óbreyttu sniði. Núverandi starfsstöðvar VJI og VSI verða nýttar áfram þar til hentugt húsnæði finnst fyrir starfsemi fyrirtækisins.

Magnús Kristbergsson, framkvæmdastjóri VJI, verður framkvæmdastjóri sameinaða fyrirtækisins og Jakob Kristjánsson sem var framkvæmdastjóri VSI verður sviðsstjóri Öryggissviðs.

Í tilkynningu segir að leiðir þessara verkfræðistofa hafi margoft legið saman við flókin hönnunarverkefni og margvíslegar verkfræðilegar úrlausnir, enda hafi megin áherslur þeirra verið á ólíkum sviðum verkfræðinnar.

VJI hefur frá stofnun fyrirtækisins 1960 sérhæft sig í verkfræði- og rekstrarráðgjöf auk almennrar verkefnastjórnunar. VSI var stofnsett árið 1987 til að svara kröfum markaðarins um faglega og óháða ráðgjöf í öryggismálum í víðasta skilningi þess orðs.

Markmiðið með sameiningu fyrirtækjanna er að veita viðskiptavinum þeirra aðgang að breiðari þekkingu og allri almennri verkfræðiþjónustu á einum stað að því er fram kemur í tilkynningu. Um leið á að halda í einkenni minni fyrirtækja sem byggja á einföldum boðskiptum, stuttum svartíma og persónulegri þjónustu.

Efnt hefur verið samkeppni um nafn á hinu sameinaða fyrirtæki meðal starfsmanna þess.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK