Dýrasti bjór Íslands?

Bjórinn var seldur á 300 þúsund krónur á uppboði.
Bjórinn var seldur á 300 þúsund krónur á uppboði. AFP

Ein flaska af bjórnum „Togarinn“ seldist á þrjú hundruð þúsund krónur um helgina. Bjórinn var framleiddur í mjög takmörkuðu magni og voru einungis tólf flöskur í boði.

Flaskan dýra seldist á uppboði á sjómannaballinu í Vestmannaeyjum og mun ágóðinn renna til krabbavarna í Vestmannaeyjum. Kaupandinn er góðgerðagolfmótið Ufsaskalli-Invitational.

Bjórinn var nefndur í höfuðið á sjómanninum Ragn­ari Þór Jó­hanns­syni, á Kap VE, eða „Ragga togara“ eins og hann er gjarnan nefndur, en móðir hans lést úr krabbameini og var það meðal annars ástæðan fyrir því að ágóðinn rann til Krabbameinsfélagsins.

Besti bjórinn á Hólum

Bjórinn var framleiddur af brugghúsinu The Brot­h­ers Brewery í Vestmannaeyjum en það er eitt minnsta brugg­hús landsins. Fyrirtækið er nýtt og fékk starfsleyfi í upphafi ársins. Líkt og áður segir voru einungis framleiddar tólf flöskur af bjórnum, eða alls þrjátíu lítrar, og verður önnur seld á uppboði um næstu helgi. Flöskurnar eru 750 ml.

Mjög takmarkað magn var til af Togaranum, eða einungis 30 ...
Mjög takmarkað magn var til af Togaranum, eða einungis 30 lítrar.

Hinar flöskurnar fóru annars vegar í sölu á veitingastaðnum Einsa kalda í Vestmannaeyjum og hins vegar á bjórhátíðina á Hólum sem fór fram um helgina. Þar vakti bjórinn mikla lukku og var hann valinn besti bjór hátíðarinnar af þrjátíu bjórum.

Framleiða lítið magn og góðan bjór

Jóhann Guðmundsson bruggmeistari segir bjórinn líklega vera að klárast um þessar mundir en bætir við að drykkurinn hafi þó verið borinn fram í litlum glösum til að gefa sem flestum tækifæri að smakka.

Aðspurður hvort meira verði framleitt í ljósi vinsældanna segir Jóhann að það hafi alltaf staðið til að brugga hann bara í þetta eina skipti. „Við bjuggumst þó ekki við svona góðum viðbrögðum. Við erum með uppskriftir og allar tímasetningar skráðar og gætum gert meira en það hefur ekkert verið ákveðið,“ segir hann.

Bjórar frá The Brot­h­ers Brewery hafa einungis verið í boði á Einsa kalda í Vestamannaeyjum en að sögn Jóhanns lenda þeir í höfuðborginni síðar í júní. Hann segist þó ekki geta gefið upp á hvaða stað það verður þar sem enn á eftir að ganga frá samningum.

Spurður hvort til standi að hefja frekari framleiðslu og koma bjórum í almenna sölu í Vínbúðum ÁTVR svarar Jóhann neitandi. „Við viljum frekar vera á smærri markaði og búa til bragðmikinn og góðan bjór í litlu magni fyrir veitingastaði í stað þess að framleiða meira magn sem gæti farið í Vínbúðir,“ segir Jóhann.

Frétt mbl.is: Brugga einungis 30 lítra af sjómannabjór

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir