Vaxtalækkun hefði áhrif á neyslu

Þeir sem eiga íbúðarhúsnæði myndu hagnast á lækkun vaxta en …
Þeir sem eiga íbúðarhúsnæði myndu hagnast á lækkun vaxta en erfiðara væri að koma inn á húsnæðismarkaðinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lækkun stýrivaxta myndi hvetja til örari íbúðafjárfestingar sem myndi með tíð og tíma halda aftur af hækkun húsnæðisverðs. Þetta kemur fram í samantekt greiningardeildar Arion banka þar sem skoðað er hvað myndi mögulega gerast yrðu stýrivextir lækkaðir um 200 punkta, í 3,25%.

Þar segir að einn helsti vandi húsnæðismarkaðarins í dag er að framboð eykst ekki í takt við eftirspurn svo stýrivaxtalækkun gæti hjálpað til við að leysa það, en aðlögunin gæti orðið sveiflukennd.

Tekið er fram að gagnrýnin á stefnu Seðlabankans sé nú hávær sem aldrei fyrr þó að stýrivextir séu nú um 3 prósentustigum lægri en þeir hafa verið að jafnaði frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp og verðbólga sé búin að vera innan vikmarka verðbólgumarkmiðs í bráðum þrjú ár. Gagnrýnin snýr ekki síst að miklum vaxtamun við útlönd og að svigrúm sé til vaxtalækkana fyrst verðbólga, sem er drifin áfram af húsnæðisverði, hefur haldist svona lág.

Yrði erfiðara að koma inn á húsnæðismarkaðinn

Bent er á að þeir sem eigi íbúðarhúsnæði myndu hagnast á lækkun vaxta. Þá myndu þeir sem kaupa húsnæði rétt eftir stýrivaxtalækkun en áður en húsnæðisverð hækkar einnig hagnast.

Á hinn bóginn væru þeir sem ætla að koma inn á húsnæðismarkaðinn eftir verðhækkunina, eða þeir sem þurfa að stækka við sig, að vissu leyti verr settir en áður þar sem þeir þurfa að leggja fram meira eigið fé. Þá hefur lækkun stýrivaxta ennfremur áhrif á þennan hóp þar sem hún gerir þeim að einhverju leyti erfiðara fyrir að spara sem eykur vanda þeirra enn frekar.

Hækkun eignaverðs eins og áður hefur verið rakin leiðir til þess að heimilin hafa meira svigrúm til þess að auka neyslu, a.m.k. tímabundið. Einnig dregur lækkun vaxta úr hvata til sparnaðar sem eykur neyslu. Vaxtalækkun hefur einnig bein áhrif á neyslu og ýtir það undir skuldsetta neyslu. „Það er meira freistandi að kaupa 5 milljóna króna bíl með láni á 8% vöxtum heldur en 10% vöxtum líkt og algengt er nú eða að taka yfirdrátt til ef vextir lækka,“ segir í samantetkinni. 

Í samantektinni segir að einn helsti vandi húsnæðismarkaðarins í dag …
Í samantektinni segir að einn helsti vandi húsnæðismarkaðarins í dag er að framboð eykst ekki í takt við eftirspurn svo stýrivaxtalækkun gæti hjálpað til við að leysa það, en aðlögunin gæti orðið sveiflukennd. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Myndi auka verðmæti lengri bréfa

Deildin telur nær öruggt er að áhrifa vaxtalækkunarinnar myndi fyrst gæta í Kauphöll Íslands. Hlutabréfaverð myndi hækka talsvert þar sem fjármögnunarkostnaður fyrirtækja lækkar, þar á meðal ávöxtunarkrafa eigin fjár. Lækkun stýrivaxta myndi einnig hafa áhrif á skuldabréfamarkað þar sem skammtímavextir fylgja stýrivöxtum að miklu leyti. Þannig myndi ávöxtunarkrafa stuttra skuldabréfa og víxla líklega lækka í kringum 200 punkta. Líklegt er að áhrif vaxtalækkunar færu svo dvínandi eftir því sem líftími bréfa er lengri. „Við teljum því að lækkun stýrivaxta myndi lækka ávöxtunarkröfu lengri bréfa og þar með auka verðmæti þeirra, líkt og gerðist í ágúst þegar Seðlabankinn lækkaði nokkuð óvænt vexti um 50 punkta,“ segir í samantek deildarinnar.

Lækkun stýrivaxta myndi þó ekki einungis hafa áhrif á Kauphöllina heldur alla eignamarkaði og þar er húsnæðismarkaðurinn ekki undanskilinn. Með lækkun raunvaxta lækkar fjármögnunarkostnaður heimila. Fyrst um sinn lækka vextir á fasteignalánum sem bera breytilega vexti, en einnig ætti stýrivaxtalækkun að hafa áhrif á fjármögnunarkjör bankanna og gera þeim kleift að bjóða lægri vexti sem eru fastir til lengri tíma.

Með ódýrari fjármögnun skapast aukið svigrúm til skuldsetningar sem auðveldar kaup og endurfjármögnun lána sem þrýstir húsnæðisverði upp á við. Þetta getur gerst hratt líkt og þegar fjármögnun íbúðarhúsnæðis varð mun auðveldari árið 2004 og húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 40% á innan við ári. Líklegt er að heildarniðurstaðan verði sú að húsnæðisverð hækki eftir vaxtalækkun þar til húsnæðiskostnaður í hlutfalli við ráðstöfunartekjur verði svipaður og áður.

Samantekina í heild má sjá hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK