Óljós framtíð Fréttatímans

Fréttatíminn.
Fréttatíminn. Skjáskot

Rúmlega 500 manns hafa skráð sig sem stofnfélaga að Frjálsri fjölmiðlun, skrifar Gunnar Smári Egilsson, rit­stjóri og út­gef­andi Frétta­tím­ans, á Facebook. Hann segir að endurskipulagningu á útgáfu Fréttatímans sé ekki lokið og ekki ljóst hver framtíð hans verði.

Líkt og fram kom á mbl.is í janúar stofnaði Frétta­tím­inn fé­lag sem heit­ir Frjáls fjöl­miðlun og óskar eft­ir hóf­legu fram­lagi al­menn­ings til að halda blaðinu úti. Fram kem­ur á heimasíðu Frétta­tím­ans að sala aug­lýs­inga standi und­ir prent­un og dreif­ingu en standi hins veg­ar ekki straum af kostnaði við ri­stjórn blaðsins.

„Á rúmum tveimur vikum hafa rúmlega 500 manns skráð sig sem stofnfélaga að Frjálsri fjölmiðlun. Það hlýtur að vera einskonar met. Stofnfélögum er í raun ekki boðið annað en að borga fyrir það sem er frítt; Fréttatímann. Þessi viðbrögð sýna að það er mikill andstaða við það í samfélaginu að svo til allir fjölmiðlar fyrir utan Ríkisútvarpið séu í eigu sérhagsmunaaðila og skilningur á því að almenningur þurfi með einhverjum hætti að tryggja áframhaldandi rekstur fjölmiðla í almannaþágu. Að öðrum kosti munu sérhagsmunirnir stjórna umræðunni.

Við höfum ekki enn lokið endurskipulagningu á útgáfu Fréttatímans og það er ekki ljóst hver framtíð hans verður. Þar til sú framtíð er tryggð mun Frjáls fjölmiðlun ekki innheimta framlög frá stofnfélögum. Það verður ekki gert fyrr en félagið verður formlega stofnað og ljóst orðið að framlag frá því muni byggja upp öfluga ritstjórn á blaði sem auglýsingamarkaðurinn tryggir mikla útbreiðslu. Ef þið viljið láta á þetta reyna ættuð þið að skrá ykkur sem stofnfélaga strax í dag. Ef stofnfélagar verða nógu margir og stuðningur Frjálsrar fjölmiðlunar nógu mikill mun Fréttatíminn eflast og styrkjast. Ef okkur tekst ekki að tryggja framtíð Fréttatímans mun ekkert verða að stofnun Frjálsrar fjölmiðlunar og engin framlög verða innheimt. Það er því engin hætta á að framlög fólks nýtist ekki til góðra verka,“ skrifar Gunnar Smári á Facebook.

Á síðu Frjálsrar fjölmiðlunar getur fólk skráð sig fyrir framlagi, allt frá andvirði eins kaffibolla á mánuði.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir