Nefndin komin í „vaxtalækkunarbuxurnar“?

,,Teikn eru þó á lofti að húsnæðisverðhækkanir gætu temprast á ...
,,Teikn eru þó á lofti að húsnæðisverðhækkanir gætu temprast á næstu mánuðum og misserum. Af þeim sökum er ekki loku fyrir skotið að nefndin lækki vexti aftur í ágúst,“ segir í greiningu Arion banka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tónn peningastefnunefndar Seðlabankans hefur mýkst til muna á síðustu mánuðum að mati Greiningardeildar Arion banka. Nefndin greindi frá því í morgun að hún hafi ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25% og var yfirlýsingin í dag sú  þriðja í röðinni þar sem ekki er minnst á að spenna í hagkerfinu, eftirspurnarvöxtur eða aðstæður á vinnumarkaði kalli á varkárni við ákvörðun vaxta, heldur aðeins að: „Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“

Þá er það mat deildarinnar að minnsta kosti hluti af peningastefnunefndinni sé kominn í „vaxtalækkunarbuxurnar“ og á þeirri skoðun að lækka megi vexti nokkuð meiri án þess að það ógni stöðugleika. Þá hefur seðlabankastjóri oftar en einu sinni tala um að raunvaxtastig hafi líklega lækkað á Íslandi og að nefndin sé að stefna að mjúkri lendingu að nýju jafnvægi.

„Þetta kemur heim og saman við ákvörðun nefndarinnar um að lækka vexti að þessu sinni,“ segir í greiningu deildarinnar.

„Ef krónan gefur ekki eftir í sumar eða heldur áfram að styrkjast má gera ráð fyrir, að öðru óbreyttu, að verðbólgu verði minni en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir. Þá hafa nýjustu verðbólgutölur ennfremur sýnt að undirliggjandi verðbólga er lítil og aðeins húsnæðisliðurinn sem er verðbólguhvetjandi að einhverju ráði. Teikn eru þó á lofti að húsnæðisverðhækkanir gætu temprast á næstu mánuðum og misserum. Af þeim sökum er ekki loku fyrir skotið að nefndin lækki vexti aftur í ágúst.“

Greininguna í heild má sjá hér. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir