Samstarfi McDonalds og Ólympíuleikanna að ljúka

McDonalds stendur í mikilli endurskipulagningu þessi misserin.
McDonalds stendur í mikilli endurskipulagningu þessi misserin. AFP

Skyndibitakeðjan McDonalds og Alþjóðlega Ólympíunefndin hafa bundið enda á samstarf sitt þremur árum fyrr en til stóð. Að sögn McDonalds stendur nú yfir allsherjarendurskoðun á fyrirtækinu í heild og eru þessar breytingar hluti af henni. 

Ólympíunefndin sagðist skilja ákvörðun McDonalds um að skoða önnur viðskiptatækifæri en samstarfið hófst árið 1976. „Við höfum því komist að þeirri sameiginlegu ákvörðun að slíta samstarfinu,“ sagði nefndin í tilkynningu en næstu Ólympíuleikar fara fram í Japan árið 2020.

Árið 2012 framlengdi McDonalds samning sinn við Ólympíunefndina um átta ár en honum hefur nú verið slitið eins og fyrr segir.

McDonalds var einn af stærstu styrktaraðilum Ólympíuleikanna og nam styrkurinn fyrir hverja Ólympíuleika, þ.e. sumar og vetrar 100 milljónum Bandaríkjadala eða því sem nemur 10 milljörðum íslenskra króna.

Þó svo að samstarf McDonalds og Ólympíunefndarinnar sé lokið verður skyndibitakeðjan áfram styrktaraðili Vetrarólympíuleikanna á næsta ári í Suður-Kóreu.

Með þessu bætist McDonalds í hóp fyrirtækja sem hafa sagt upp samningum við Ólympíuleikanna en fyrr á árinu en bjórframleiðandinn InBev Budweiser, Hilton hótelkeðjan og fjarskiptafyrirtækið AT&T hafa öll dregið sig úr styrktarsamningum við Ólympíunefndina.

Mikil endurskipulagning hefur staðið  yfir hjá McDonalds til þess að bregðast við minnkandi sölu.

Frétt BBC.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir