Spáir 1,6% hækkun á húsnæðisverði

„Húsnæðisverð hefur hækkað jafnt og þétt undanfarna mánuði og teljum ...
„Húsnæðisverð hefur hækkað jafnt og þétt undanfarna mánuði og teljum við að sú þróun haldi áfram. Það vekur þó athygli að auglýstum fasteignum hefur fjölgað, sem er nýmæli síðustu mánuði, og gefur vonandi fyrirheit um að framboðið sé byrjað að taka betur við sér,'' segir í greiningunni. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Greiningardeild Arion banka spáir því að húsnæðisverð hækki um 1,6% í júní og hafi 0,30% áhrif á vísitöluneysluverðs. Þá spáir deildin því að árstakturinn fari úr 22,5% í 23,6% um allt land.

„Húsnæðisverð hefur hækkað jafnt og þétt undanfarna mánuði og teljum við að sú þróun haldi áfram. Það vekur þó athygli að auglýstum fasteignum hefur fjölgað, sem er nýmæli síðustu mánuði, og gefur vonandi fyrirheit um að framboðið sé byrjað að taka betur við sér. Í ljósi þess teljum við líklegt að hækkun húsnæðisverðs fari að hægja á sér á komandi mánuðum og misserum,“ segir í greiningu deildarinnar sem spáir því að aðrir undirliðir húsnæðisliðarins muni einnig hækka svo heildaráhrif húsnæðisliðarins eru því til +0,33% hækkunar vísitölu neysluverðs.

Deildin spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% milli mánaða í júní og að ársverðbólgan standi í stað í 1,7%. Bent er á að líkt og undanfarna mánuði er það hækkandi húsnæðisverð sem drífur verðbólguna áfram en á móti vega gengisstyrking krónunnar og aukin samkeppni. Aðrir liðir sem hækka í júní eru flugfargjöld til útlanda hótel og veitingastaði en um er að ræða árstíðabundnar hækkanir. Áframhaldandi lækkun eldsneytisverðs  vegur þyngst á móti húsnæðisverðshækkunum en einnig lækka aðrar neysluvörur, eins og matur og drykkjavörur, samhliða aukinni samkeppni.

Deildin spáir því að verðlag lækki um -0,4% í júlí, hækki um 0,3% í ágúst og hækki um 0,4% í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,5% í september.

Greininguna í heild má sjá hér. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir