Gray Line hyggst halda sínu striki

Gray Line hyggst halda áfram að bjóða upp á akstursþjónustu …
Gray Line hyggst halda áfram að bjóða upp á akstursþjónustu til og frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við höfum í sjálfu sér engar áhyggjur af þessu, við sjáum bara tækifæri í þessu,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, í samtali við mbl.is. Gray Line tapaði í útboði Isavia á aðstöðu fyr­ir hóp­ferðabif­reiðar við Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar en fyrirtækið hyggst þó halda áfram að bjóða upp á áætlunarferðir til og frá flugstöðinni.

Kynnisferðir buðu hæst eða 41,2% af veltu og þá áttu Hópbílar næsthæsta tilboðið upp á 33,33% af veltu. Gray line bauð 26,56% sem Þórir segir vera algjört hámark.

Í bókun sem Gray Line lagði fram á opnunarfundi útboðsins er áréttað að útboðið feli ekki í sér einkaleyfi á reglubundnum ferðum til og frá flugstöðinni með ferðamenn sem um hana fara. Útboðið taki til aðstöðu sem feli í sér „að rekstrarleyfishafar hafi greiðari aðgang að aðstöðunni, flugstöðinni og farþegum en aðrir aðilar sem bjóða upp á sambærilega þjónustu á svæðinu,“ líkt og fram hafi komið í fyrirspurnasvörum útboðsins. Um sé að ræða pláss fyrir miðasölubás inni í flugstöðinni og bílastæði næst flugstöðvarbyggingunni.

Hyggst Gray Line því halda áfram að þjónusta viðskiptavini í ferðum til og frá flugvellinum en viðskiptavinir fyrirtækisins eru að sögn Þóris í flestum tilfellum búnir að bóka og greiða fyrir ferðir sínar löngu áður en þeir stíga fæti inn í flugstöðina.

Halda áfram að bjóða sömu þjónustu

Gjaldið sem Gray Line bauð í útboðinu, 26,56% af miðasöluveltu frá flugstöðinni, var „algjört hámark og rúmlega það sem eðlilegt gæti talist að leggja á sem kostnaðarauka fyrir viðskiptavini félagsins, m.a. til að félagið hafi greiðari aðgang að sölu ferða innan flugstöðvarinnar,“ að því er segir í bókuninni. Sú sala sé óverulegt hlutfall af heildarviðskiptum í flugstöðvarakstrinum.

„Raungerist það að Gray Line missi aðstöðu þá sem félagið hefur á leigu í dag í og við flugstöðina, mun félagið engu að síður halda áfram að bjóða viðskiptavinum sínum sömu þjónustu og áður, í almennum stæðum flugstöðvarinnar. Fargjöld verða enn samkeppnishæfari en áður, enda kom skýrt kom fram í fyrirspurnasvörum útboðsins að ekki yrði reynt að koma í veg fyrir samkeppni, enda samrýmist það ekki lögum,“ segir enn fremur í bókuninni.

Tækifæri felist í tapinu

Að sögn Þóris er útreikningur á veltugjaldinu bundinn lágmarksupphæð veltu sem sé 500 milljónir króna með virðisaukaskatti og gerð krafa um að bjóðandi greiði a.m.k. 85% af áætlaðri veltu eða af því sem nemur 382.500.000. Gray Line hafi í þau sex ár sem fyrirtækið hafi haft aðstöðu í flugstöðinni ekki náð slíkri veltu. 

Segir Þórir tækifæri felast í því að hafa tapað útboðinu. Samkeppnishæfi fyrirtækisins geti aukist enda þurfi félagið ekki að greiða veltugjald til Isavia upp á hundruð milljóna króna. 

„Airport Express undir merki Gray Line er vörumerki og áætlun sem við hjá Gray Line erum búin að byggja upp í mörg ár og eigum í miklum og góðum viðskiptasamböndum við erlendar ferðaskrifstofur sem selja í ferðir. Akstursáætlun okkar eftir breytingu á bílastæðum og aðstöðu mun verða óbreytt en ef eitthvað er þá mögulega fjölga brottförum,“ segir Þórir.

„Við lítum á breyttar aðstæður sem tækifæri til að bæta okkar þjónustu og fjölga viðskiptavinum í Airport Express-ferðum okkar og lykilinn að því er lægri kostnaður en hjá okkar samkeppnisaðilum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK