Sumir útiloka hækkun en ekki aðrir

mbl.is/Styrmir Kári

Forystumenn stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til alþingiskosninga tóku misdjúpt í árinni þegar þeir voru spurðir um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu á opnum fundi sem Samtök ferðaþjónustunnar stóðu fyrir í Hörpu í morgun. Sumir útilokuðu hækkun en aðrir treystu sér ekki til þess að segja af eða á. 

Í fjár­laga­frum­varpi sem Benedikt Jóhannesson fjár­málaráðherra kynnti í september áður en stjórnarsamstarfinu var slitið var keðið á um að virðis­auka­skatt­ur á ferðaþjón­ust­una hækkaði í 22,5% um ára­mót­in 2018/​19 sam­hliða al­mennri lækk­un efra virðis­auka­skattsþreps­ins úr 24% í 22,5%. 

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ráðherra Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun að hugmyndin hefði ekki orðið til á sínu borði og að ekkert hefði enn verið lögfest. „Ég ætla ekki að standa hér og segja að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu fari aldrei upp í almennt þrep en ákvörðun um það yrði aldrei tekin fyrr en eftir greining á áhrifum þess á greinina.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður Viðreisnar, sagði að skoða þyrfti málið í heildarsamhengi. Taka þyrfti þætti eins og lækkun tryggingargjalds og gengisstöðugleika með í reikninginn. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins sagði að þessar tillögur væru óskynsamlegar eins og staðan væri í dag, þær kæmu ekki til greina. „Við viljum byggja upp ferðaþjónustu á jaðarsvæðum en að gerist ekki með því að kippa fótunum undan fyrirtækjunum.“

Kerfið vill skattleggja greinina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að flokkurinn hefði ekki hyggju að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Hann sagðist gruna að tillögurnar ættu uppruna sinn að rekja til kerfisins fremur en stjórnmálamanna. „Í kerfinu er mikil löngun í að hækka skatta á ferðaþjónustuna, við þurfum að gæta að því að kerfið taki ekki ákvörðun um þetta mál.“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, tók í svipaðan streng og Þorgerður Katrín. Hann sagðist telja að gengisbreytingar íslensku krónunnar hefðu stærri áhrif á ferðaþjónustuna en hækkun virðisaukaskatts og treysti sér ekki til að útiloka breytingar á skattþrepi greinarinnar.

Hafa skipt um skoðun

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði að flokkurinn styddi ekki hækkunina. Greiningar hefðu sýnt að hún kæmi verst niður á smærri fyrirtækjum. „Ef við færum í hækkunina væri greinin með næsthæsta virðisaukaskattinn í Evrópu. Við viljum að ferðaþjónustan sé samkeppnishæf.“

Jó­hanna Vig­dís Guðmunds­dótt­ir, sem skip­ar annað sæti lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður, sagði að flokkurinn hefði skipt um skoðun í þessu máli, tillögurnar væru ekki á stefnuskrá Samfylkingarinnar. 

Ekki á þessu kjörtímabili

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að meginmarkmið flokksins væri að útrýma mismunun, líka í skattheimtu. „En það er ekki sama hvenær hlutirnir eru framkvæmdir. Það er á stefnuskrá Flokks fólksins að hækka þrepið en ekki á næsta kjörtímabili.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, sem er í framboði fyrir Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, tók síðastur til máls. Hann sagði að Píratar styddu ekki hækkun á skattþrepinu. „Það þarf að rækta greinina frekar en að reyna að mjólka meiri pening úr henni.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir