Þreifingar á markaði gætu leitt til stórtjóns

Ný reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um markaðssvik verður innleidd hér á landi á síðari hluta næsta árs eða í byrjun árs 2019. Innleiðingin kallar á skipulagsbreytingar hjá mörgum markaðsaðilum.

Aðalsteinn E. Jónasson, hrl. og nýskipaður dómari við Landsrétt, hefur ritað ítarlega grein um hið nýja regluverk þar sem sýnt er fram á að fyrirtæki á borð við lífeyrissjóði og verðbréfasjóði verði að bregðast við fyrirhugaðri innleiðingu. Þá gaf hann einnig í sumar út bókina Markaðssvik, sem tekur með heildstæðum hætti á reglum um upplýsingaskyldu, innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun.

Bendir Aðalsteinn á að gríðarlegt tjón geti hlotist af því, verði starfsmenn fyrirtækja uppvísir að ólöglegri miðlun innherjaupplýsinga. Í því tilliti vísar hann til þess að fjárhæðarmörkum þeirra sektarheimilda sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja á fyrirtæki sem brjóta gegn reglunum hefur verið breytt verulega.

„Hámarkssekt vegna brota af þessu tagi fer úr 50 milljónum í 800 milljónir eða 10% af veltu viðkomandi lögaðila. Það eru gríðarlegar upphæðir og leiða má líkur að því að sektir í málum sem upp hafa komið á síðustu árum hefðu reynst mun hærri, hefði hækkun sektarheimildanna verið komin til fyrr,“ segir Aðalsteinn við ViðskiptaMoggann í dag þar sem finna má ýtarlegri umfjöllun. 

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir