Bónusgreiðslur í óþökk LV

Lífeyrissjóður verzlunarmanna segir bónusgreiðslurnar ekki í samræmi við sjónarmið sem ...
Lífeyrissjóður verzlunarmanna segir bónusgreiðslurnar ekki í samræmi við sjónarmið sem starfskjarastefna sjóðsins byggi á. Ómar Óskarsson

Lífeyrissjóður verzlunarmanna segist telja bónusgreiðslur Klakka upp á um 550 milljónir vera umfram eðlileg viðmið og ekki í samræmi við sjónarmið sem starfskjarastefna sjóðsins byggi á. Greint var frá því í gær að hluthafafundur Klakka, móðurfélags Lykils, áður Lýsingar, hafi samþykkt tillögu um kaupaaukakerfi sem getur skilað stjórnendum og stjórnarmönnum félagsins þessari upphæð í bónusgreiðslur.

Stærsti eigandi Lykils er vogunarsjóðurinn Davidson Kempner, en þá eiga líka LSR, Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Birta um 6% í Klakka.

Í gær kom fram að Gildi lífeyrissjóði hafi ekki verið kunnugt um hluthafafundinn og hafi því ekki tekið afstöðu til tillögunnar. Þá hvatti Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, til mótmæla á morgun við húsnæði eignarhaldsfélagsins Klakka vegna málsins.

Í tilkynningu frá LV segir að sjóðnum þyki miður þau sjónarmið sem hafi komið fram í fjölmiðlum um að sjóðurinn hafi ekki sinnt eðlilegri hagsmunagæslu fyrir sjóðfélaga þegar ákveðnar voru kaupaukagreiðslur til stjórnenda og stjórnar Klakka. „Fyrir liggur að LV hafði ekkert afl til að breyta þeirri ákvörðun sem tekin var af hálfu mikils meirihluta hluthafa Klakka,“ segir í tilkynningunni.

Hlutur LV í Klakka er 1,5% og bókfært virði hans 47 milljónir. „Hér er því um að ræða hlut sem nemur einungis um 0,007% af um 650 milljarða eignasafni LV,“ segir í tilkynningu sjóðsins.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir