Kaupverð Olís hækkar um 1,2 milljarða

Bens­ín­stöð Olís á Höfn í Hornafirði.
Bens­ín­stöð Olís á Höfn í Hornafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vænt kaupverð á Olís vegna fyrirhugaðs samruna við Haga nemur 10,4 milljörðum króna samkvæmt fjárfestakynningu Haga vegna uppgjörs síðasta rekstrarárs. Það er 1,2 milljörðum hærri upphæð en sú sem kom fram í tilkynningunni um samrunann. 

Þegar greint var frá fyrirhuguðum samruna félaganna síðasta vor var kaupverðið sagt vera tæpir 9,2 milljarðar króna. Hins veg­ar var tekið fram að end­an­legt kaup­verð gæti tekið breyt­ing­um vegna af­komu Olís á ár­inu 2017. Yrði EBITDA fé­lags­ins vegna rekstr­ar­árs­ins 2017 hærri en 2,1 millj­arður króna kæmi það til hækk­un­ar kaup­verðs. Kaup­verð gæti að há­marki hækkað um einn millj­arð króna yrði EBITDA fé­lags­ins rekstr­ar­árið 2017 2,3 millj­arðar eða hærri.

Kaup­verðið verður greitt ann­ars veg­ar með af­hend­ingu á 111 millj­ón hlut­um í Hög­um og hins veg­ar með reiðufé sem verður að hluta til aflað með láns­fé. Í fjárfestakynningunni segir að Hagar hafi tryggt sér skammtímafjármögnun vegna kaupanna. 

Þann 8. mars síðastliðinn tilkynntu Hagar um afturköllun samrunatilkynningar vegna samruna Haga, Olís og DGV. Ný samrunatilkynning, með uppfærðum tillögum að skilyrðum, var send til Samkeppniseftirlitsins í kjölfarið. 

Í lok apríl barst Högum frummat um hina nýju samrunatilkynningu. Þar kom fram það frummat eftirlitsins að Hagar hefðu ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði nægðu til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiða af samrunanum. 

Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við frummatið á framfæri og eftir atvikum veita Samkeppniseftirlitinu frekari upplýsingar með það að markmiði að ná sátt um samrunann. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK