Hallinn 20,9 milljarðar í júní

Hagstofa Íslands hefur birt tölur um halla á vöruskiptum í ...
Hagstofa Íslands hefur birt tölur um halla á vöruskiptum í júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir júní 2018 nam fob-verðmæti vöruútflutnings 50,7 milljörðum króna og fob-verðmæti vöruinnflutnings 71,6 milljörðum króna. Vöruviðskiptin í júní, reiknuð á fob-verðmæti, voru því óhagstæð um 20,9 milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Í júní 2018 var verðmæti vöruútflutnings 5,9 milljörðum króna hærra en í júní 2017 eða 13,1% á gengi hvors árs. Hækkunina má að mestu rekja til aukins útflutnings á iðnaðarvörum.

Verðmæti vöruinnflutnings í júní 2018 var 11,9 milljörðum króna hærra en í júní 2017 eða 19,9% á gengi hvors árs. Munurinn á milli ára skýrist aðallega af auknum innflutningi á eldsneyti ásamt auknum innflutningi á hrávörum og rekstrarvörum.

Hafa skal í huga að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Niðurstöður gætu breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar, segir enn fremur í frétt Hagstofunnar.

Á tímabilinu janúar til maí 2018 voru fluttar út vörur fyrir 236,3 milljarða króna en inn fyrir 299,5 milljarða (319,5 milljarða króna cif). Halli á vöruskiptum við útlönd nam því 63,2 milljörðum króna reiknað á fob-verðmæti.

Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 71,3 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn janúar til maí er því 8,1 milljarði króna lægri en á sama tíma fyrir ári síðan. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn 48,4 milljörðum króna, samanborið við 61,1 milljarð króna á sama tíma árið áður.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir