Árvakur og 365 miðlar kaupa Póstmiðstöðina

Árvakur og 365 miðlar hafa undirritað kaupsamning um kaup á …
Árvakur og 365 miðlar hafa undirritað kaupsamning um kaup á Póstmiðstöðinni. Morgunblaðið/ÞÖK

Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins og mbl.is, og 365 miðlar hf., eigandi Torgs ehf., útgáfurfélags Fréttablaðsins, hafa undirritað kaupsamning um kaup á 100% hlutafjár í Póstmiðstöðinni hf. af seljendunum Fiskisundi ehf, Stahan II ehf. og Hannesi Hannessyni.

Kaupsamningurinn er m.a. gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Póstmiðstöðin rekur alhliða þjónustu sem nær til móttöku, söfnunar, flokkunar, flutnings og skila á póstsendingum. Póstmiðstöðin er m.a. dreifingaraðili Fréttablaðsins. Áætlanir kaupenda gera ráð fyrir að Póstmiðstöðin annist dreifingu bæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins auk fleiri blaða.

Póstdreifing er dótturfélag Póstmiðstöðvarinnar.
Póstdreifing er dótturfélag Póstmiðstöðvarinnar.

Eignarhlutföll að kaupunum loknum verða þau að Árvakur fer með 51% eignarhlut í Póstmiðstöðinni, en 365 miðlar 49%. Kaupverð er trúnaðarmál.

Í sameiginlegri yfirlýsingu félaganna er haft eftir Ingibjörgu S. Pálmadóttur, forstjóra 365 miðla: „Alþekkt er að rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi hefur verið erfitt. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að eðlileg hagræðing fái að eiga sér stað. Þessi kaup Árvakurs og 365 miðla eru liður í því að tryggja að áfram verði gefin út öflug dagblöð á Íslandi, og að innlendir aðilar, stórir og smáir hafi aðgang að öflugri dreifingarþjónustu sem veitir einokunarþjónustu ríkisins samkeppni og aðhald.“

Haft er eftir Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs í tilkynningunni: „Erlendis hefur þróunin verið sú að dagblöð hafa samnýtt dreifikerfi til að takast á við erfiðar markaðsaðstæður. Hér á landi er ekki síður þörf á að fara þessa leið þegar haft er í huga að íslenski fjölmiðlamarkaðurinn er smár, hann býr við mikla erlenda samkeppni, auk harðrar samkeppni við umsvifamikið ríkisfyrirtæki. Ég vonast til að samningurinn sem hér er kynntur styrki rekstur Árvakurs og Póstmiðstöðvarinnar og mun leitast við að tryggja að þeir starfsmenn sem samningarnir snerta helst verði fyrir sem minnstum óþægindum þeirra vegna og muni sem flestir njóta ávinnings af þeim breytingum sem samningarnir munu hafa í för með sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK