Bitnar á 55 þúsund farþegum

Fjölda flugferða hefur verið aflýst frá Skavsta-flugvellinum í Nyköping í ...
Fjölda flugferða hefur verið aflýst frá Skavsta-flugvellinum í Nyköping í Svíþjóð. AFP

Flugmenn írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair í fimm Evrópulöndum hófu í nótt verkfall, sem vara á í sólarhring. Nú er ljóst að verkfallið bitnar á um 55 þúsund farþegum, einmitt þegar tími sumarleyfisferða er ef til vill í hámarki.

Flugfélagið hefur þegar þurft að aflýsa 400 af 2.400 flugferðum sínum sem áætlaðar voru í dag. Segist félagið hafa boðið viðskiptavinum sínum endurgreiðslu eða möguleikann á að bóka ferð sína eftir öðrum leiðum.

Mestu áhrifin í Þýskalandi

Fyrir verkfallinu standa flugmenn frá Írlandi, Þýskalandi, Belgíu, Svíþjóð og Hollandi, og reyna þeir með þessu að knýja félagið til viðræðna um sameiginlega launþegasamninga í kjölfar þess að félagið hóf að viðurkenna verkalýðsfélög í desember síðastliðnum.

Mestu áhrifin hafa orðið í Þýskalandi, þar sem 250 flugferðum frá tíu flugvöllum hefur verið aflýst. Svonefnt Cockpit-verkalýðsfélag þar í landi segist hafa útnefnt 480 flugmenn Ryanair til að ganga frá vinnu sinni upp úr klukkan þrjú í nótt að staðartíma, eða um klukkan eitt að íslenskum tíma. Verða þeir fjarri vinnu til klukkan 02.59 í nótt, að því er segir í tilkynningu.

„Í höfuðstöðvum félagsins í Dublin þarf að fara fram endurskoðun á því hvernig komið er fram við starfsmennina,“ segir Ingolf Schumacher, sem er yfir launastefnudeild verkalýðsfélagsins, í samtali við fréttaveitu AFP.

„Ryanair segir að ekki sé til einn aukatekinn aur fyrir starfsmannakostnað,“ bætir hann við. „Og þess vegna eru engar endurbætur mögulegar.“

Verkfallið, sem teygir sig til fimm Evrópulanda, er sagt án ...
Verkfallið, sem teygir sig til fimm Evrópulanda, er sagt án fordæma. AFP

Þéni minna en kollegar þeirra

Verkfallið, sem sagt er án fordæma og teygir sig eins og áður sagði til fimm landa, stigmagnar enn frekar langvarandi deilu Ryanair við flugmenn og aðra starfsmenn sína.

Flugfélagið státar af lægri kostnaði við hvern farþega en keppinautar þess og reiknar með 1,25 milljarða evra hagnaði í ár, eða sem nemur um 156 milljörðum íslenskra króna.

Flugmenn félagsins hafa á sama tíma fullyrt að þeir þéni minna en kollegar þeirra sem starfa hjá umræddum keppinautum. Þá hafa þeir kvartað undan því fyrirkomulagi Ryanair að notast við írska löggjöf í starfsmannahaldinu, sem synji þeim um leið aðgangs að bótum í því ríki þar sem þeir starfa í raun.

Flugmenn mótmæla í dag á belgíska flugvellinum Charleroi.
Flugmenn mótmæla í dag á belgíska flugvellinum Charleroi. AFP
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir