Fjöldi nýbygginga og kalt tíðarfar eykur tekjur OR

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. Árni Sæberg

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) nam 3,8 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður OR 1,3 milljörðum króna. Sé litið til fyrstu sex mánaða ársins nam hagnaður félagsins 4,2 milljörðum króna samanborið við 7,3 milljarða króna í fyrra.

Eignir samstæðunnar námu 315,5 milljörðum króna í lok júní, eigið fé nam 149 milljörðum og er eiginfjárhlutfallið 47,3%.

EBITDA, hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, nam 14,5 milljörðum króna á fyrri árshelmingi samanborið við 13,5 milljarða á fyrri árshelmingi ársins 2017.

Í tilkynningu frá félaginu segir að aukin umsvif í samfélaginu, fjöldi nýbygginga og kalt tíðarfar hafi enn fremur valdið því að tekjur OR og dótturfélaga jukust um 1,5 milljarða króna miðað við sama tímabil í fyrra.

„Þetta gerðist þrátt fyrir lækkun á gjaldskrám Veitna fyrir kalt vatn og rafmagnsdreifingu í upphafi árs. Rekstrargjöld jukust á sama tíma um 560 milljónir króna og valda [sic] þar mestu aukinn launakostnaður við fjölgun starfsfólks vegna verkefna sem leiða af auknum umsvifum í samfélaginu,“ segir í tilkynningu frá OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir rekstur fyrirtækisins standa traustum fótum.

„Rekstur og fjárhagur OR stendur traustum fótum. Því horfum við nú langt fram á veginn og hugum að uppbyggingu veitukerfa og þeirri þjónustu sem fólk vill njóta í framtíðinni. Í vor ræddum við fráveitumálin á ársfundinum okkar, aukna sjálfvirkni í þjónustu og það mikilvæga umhverfisverkefni sem orkuskipti í samgöngum eru. Nú blasir við að kortleggja þessa vegferð skref fyrir skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK