Neikvæð afkoma í erfiðu umhverfi

Prentsmiðja Morgunblaðsins í Hádegismóum þykir fagaðilum ein sú besta í ...
Prentsmiðja Morgunblaðsins í Hádegismóum þykir fagaðilum ein sú besta í heimi. mbl.is/Árni Sæberg

Rekstur Árvakurs hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og K100, þyngdist verulega árið 2017 frá fyrra ári. Tap fyrir skatta nam 241 milljón króna en var 48 milljónir árið áður.

Versnandi afkoma skýrist af því að þrátt fyrir að tekjur hafi aukist um rúm 3% og numið 3,7 milljörðum þá jukust gjöld um tæp 9% og námu 3,9 milljörðum króna. Afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir var neikvæð um 93 milljónir króna, en var jákvæð um 99 milljónir ári fyrr.

Tap ársins nam 284 milljónum króna en árið 2016 var tapið 50 milljónir. Eiginfjárstaða er eftir sem áður sterk og var eiginfjárhlutfallið 39% um áramót. Þá var nýlega lokið við hlutafjáraukningu upp á 200 milljónir króna.

Erfitt rekstrarumhverfi

„Það er kunnara en frá þurfi að segja að rekstur einkarekinna íslenskra fjölmiðla er erfiður um þessar mundir og hefur raunar verið misserum saman eins og sést af umræðunni á vettvangi ríkisvaldsins að laga rekstrarumhverfi þeirra. Árvakur hefur ekki farið varhluta af þessu og eru skýringarnar nokkrar,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs.

„Samkeppnin við Ríkisútvarpið hefur farið harðnandi vegna aukinna umsvifa þess, einkum á auglýsingamarkaði. Erlend samkeppni hefur einnig harðnað mjög og þar keppa innlendir miðlar við erlenda miðla sem búa við allt aðrar aðstæður, svo sem í skattalegu tilliti og í tækifærum til auglýsingasölu. Ennfremur hefur launakostnaður hér á landi hækkað ört og fyrir fyrirtæki þar sem sá liður vegur langsamlega þyngst í rekstrinum, þá er óhjákvæmilegt að það hafi veruleg áhrif. Hluti af tapi síðasta árs stafar þó einnig af því að við erum að byggja upp nýja starfsemi og sú uppbygging hefur kostað töluvert fé, en við gerum ráð fyrir að hún muni skila sér í auknum tekjum, meiri hagkvæmni og jákvæðri afkomu.

Við höfum á þessu ári sýnt aukið aðhald í rekstrinum en hann hefur engu að síður áfram verið þungur. Upp á síðkastið höfum við hert á þessum aðgerðum og teljum að þær muni duga til að loka því gati sem myndast hefur. Við höfum lagt okkur fram um að gera þetta án þess að skerða þjónustu við áskrifendur og aðra notendur miðla Árvakurs og höfum frekar aukið við og breikkað þjónustuna.“

Sterk staða miðlanna

„Það er ánægjulegt, og lykilatriði til framtíðar, að staða miðla Árvakurs hefur haldist sterk og styrkst. Morgunblaðið nær nú til rúmlega helmings þjóðarinnar í hverri viku, sem er aukning frá fyrra ári, mbl.is heldur áfram yfirburðastöðu sem fréttamiðill á netinu og K100 hefur styrkt stöðu sína og þar teljum við mikil sóknarfæri. Við höfum líka verið að bjóða nýjungar, eins og Hljóðmoggann, fyrir fólk á ferðinni og aðra sem geta frekar hlustað á blöð en lesið þau. Þá erum við stöðugt að skoða ný tækifæri til vaxtar, til að afla nýrra tekna og veita aukna þjónustu,“ segir Haraldur.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir