Ameríkuflugið enn til trafala

Framboð flugsæta til Ameríku hefur aukist hjá Icelandair, en eftirspurnin ...
Framboð flugsæta til Ameríku hefur aukist hjá Icelandair, en eftirspurnin hefur ekki fylgt því aukna framboði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Farþegum Icelandair fækkaði um 1% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra. Flugu 523 þúsund farþegar með félaginu í ágúst í ár en 529 þúsund fyrir ári. Sala á áfangastaði í Ameríku hefur ekki fylgt framboðsaukningu og er sætanýting þangað mun slakari en til Evrópu.

Sætanýting félagsins minnkaði og var 86% miðað við 87,9% í ágúst í fyrra. Framboðnir sætiskílómetrar jukust hins vegar um 3%.

Flug til Norður-Ameríku virðist áfram vera til vandræða, en í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að í ágúst hafi verið sama þróun og undanfarna mánuði. „Sala á áfangastaði í N-Ameríku hefur ekki fylgt framboðsaukningunni eftir á meðan sala til Evrópu hefur verið mjög góð. Til samanburðar var sætanýting á leiðum Icelandair í Evrópu 90,8% og jókst um 5,8 prósentustig á milli ára en sætanýting á leiðum félagsins til N-Ameríku var 83,1% og minnkaði um 6,7 prósentustig á milli ára. Farþegum á heimamarkaðinum frá Íslandi og  ferðamannamarkaðinum til Íslands fjölgaði á milli ára, en fækkaði á N-Atlantshafsmarkaðinum.“

Farþegum Air Iceland Connect fækkaði um 15% milli ára og voru þeir tæplega 33 þúsund í mánuðinum. Skýringuna má finna í því að félagið hætti í maí að fljúga til Belfast og Aberdeen, sem og á milli Keflavíkur og Akureyrar.

Fraktflutningar hjá Icelandair drógust saman um 6% milli ára og þá batnaði nýting á hótelum félagsins. Fjölgaði framboðnum gistinóttum um 14% milli ára og herbergjanýting jókst úr 88,6% í fyrra í 89,9% í ár í ágúst.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir