„Bullandi tap“ í hótelrekstri úti á landi

Alexander G. Eðvarðsson kynnti könnun sína á rekstrarafkomu þriggja atvinnugreina …
Alexander G. Eðvarðsson kynnti könnun sína á rekstrarafkomu þriggja atvinnugreina í ferðaþjónustu í morgun. mbl.is/Eggert

Afkoma hótela og gistiheimila í landsbyggðunum fer versnandi og mörg þeirra eru rekin með tapi. Til dæmis er EBITDA-framlegð hótela og gistiheimila á Norðurlandi á fyrstu sex mánuðum þessa árs að meðaltali neikvæð um 20,4% og herbergjanýtingin einungis á bilinu 31-54%.

Þá hefur hagnaður bílaleiga og hópbílafyrirtækja svo gott sem þurrkast út á allra síðustu árum. Hagnaður bílaleiga lækkaði úr 6,3% af tekjum niður í aðeins 0,5% að meðaltali á milli áranna 2016 og 2017. Svipuð þróun hefur orðið hjá hópbílafyrirtækjum, en tap félaga í þeim geira árið 2017 nam 1,7% af tekjum þeirra.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í kynningu Alexanders G. Eðvarðssonar, meðeiganda á skatta- og lögfræðisviði KPMG, í morgun, en Alexander vann könnun fyrir Ferðamálastofu á rekstrarafkomu hótela, bílaleiga og hópbílafyrirtækja. Niðurstöður hans byggja á afkomugögnum frá fyrirtækjunum sjálfum.

Launakostnaður hótela á landsbyggðinni er kominn upp í 46,9% af …
Launakostnaður hótela á landsbyggðinni er kominn upp í 46,9% af tekjum þeirra. Tafla/KPMG

Alexander sagði að það væri „bullandi tap“ á rekstri hótela úti á landi heilt yfir, en EBITDA hjá hótelum úti á landi var einungis 2,2% í fyrra. Afkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sex mánuðum ársins er þó betri en í fyrra, en almennt gildir það að því lengra frá höfuðborginni sem hótelin eru staðsett, því verri er staðan.

Í könnuninni studdist Alexander við gögn sem gerðu honum kleift að brjóta landsbyggðirnar niður í þrjú svæði, Vesturland, Suðurland og Norðurland. Ekki bárust gögn frá nægilega mörgum rekstraraðilum á Austurlandi til að mögulegt væri að greina þau sérstaklega, en könnunin tók til hótela sem eru með 4.315 herbergi af þeim ríflega 9.500 hótelherbergjum sem eru í boði á landinu.

Staða hótela á Norðurlandi þótti Alexander sérstaklega sláandi.
Staða hótela á Norðurlandi þótti Alexander sérstaklega sláandi. Tafla/KPMG

Tölurnar um Norðurland þóttu Alexander sérstaklega sláandi, en launakostnaður hótela í landshlutanum er kominn upp í 51% af tekjum fyrirtækjanna og hækkar um 9 prósentustig á milli ára. Meðaltalið á landsbyggðinni allri er 46,9%, en á höfuðborgarsvæðinu eru laun og launatengd gjöld 38,7% af tekjum hótela.

Slæm staða á Norðurlandi er afleiðing hækkandi launa, minni nýtingar gistirýma og lægra meðalverðs á gistingu í landshlutanum, en fram kom í niðurstöðum Alexanders að heilt yfir hafi aðilar í ferðaþjónustu hér á landi ekki náð að koma innlendum kostnaðarhækkunum og áhrifum af styrkingu krónunnar að fullu inn í verðið á þeirri þjónustu sem þau eru að bjóða.

Enda er það þrautin þyngri. Hótel sem seldi gistingu á 100 evrur nóttina árið 2012 hefði þurft að hækka verðið um 66% í evrum til að halda sömu framlegð í krónum talið árið 2017, segir Alexander.

Á höfuðborgarsvæðinu er afkoma hótela mun betri en í landsbyggðunum.
Á höfuðborgarsvæðinu er afkoma hótela mun betri en í landsbyggðunum. Tafla/KPMG

Staðan er öllu betri á höfuðborgarsvæðinu og þar hefur nýting gistirýma batnað lítillega, auk þess sem meðalverð gistingar er að jafnaði um 20% hærra en í landsbyggðunum. Í Reykjavík og nágrenni skila hótel almennt hagnaði þrátt fyrir krefjandi ytri aðstæður og var afkomubati hótela á höfuðborgarsvæðinu meiri en Alexander hafði sjálfur gert ráð fyrir að sjá.

Lítill hagnaður hjá bílaleigum

Það harðnar á dalnum hjá bílaleigum, rétt eins og í hótelrekstri í landsbyggðunum. Hagnaður bílaleiga á síðasta ári nam einungis 0,5% af tekjum þeirra, en var 6,3% af tekjum árið 2016.

Alexander studdist við gögn frá níu af stærstu bílaleigum landsins. Fjögur félaganna voru rekin með tapi í fyrra, en fimm með hagnaði. Einungis tvö félaganna voru rekin með tapi árið 2016 og Alexander sagði það sýna ákveðna þróun.

Fundurinn í morgun var vel sóttur af fólki úr ferðaþjónustunni …
Fundurinn í morgun var vel sóttur af fólki úr ferðaþjónustunni og öðrum áhugasömum um stöðuna. mbl.is/Eggert

Á milli áranna 2016 og 2017 jukust tekjur þessara félaga að meðaltali um 7,8% en kostnaðurinn um 13,3%. Launakostnaður hækkaði mest, eða um 21,8% í krónum og launakostnaður í bílaleigubransanum nam 25,4% af tekjum árið 2017 en var 22,5% af tekjum árið 2016.

Greinin hefur vaxið mjög á síðustu árum samfara auknum fjölda ferðamanna, en fjöldi bílaleigubíla í ágúst síðastliðnum voru 27.079 en í ágúst árið 2012 voru bílaleigubílarnir 10.092 talsins. Því hefur fjármagnskostnaður fyrirtækjanna aukist mikið – en þessum aukna fjölda bíla fylgir líka offramboð á bílum yfir vetrarmánuðina.

Hópbílafyrirtækin tapa

„Ég get líka jarðað hópbílafyrirtækin,“ sagði Alexander léttur í bragði á fundinum, sem var vel sóttur af áhugafólki um stöðu ferðaþjónustunnar í landinu. Gögn hans tóku til sex af stærstu hópbílafyrirtækjum landsins, sem bjóða ferðamönnum upp á hópferðir af ýmsu tagi.

Tekjur jukust um 4,4% á milli áranna 2016 og 2017 en kostnaðurinn jókst meira, eða um 5,7%. Nokkrar sviptingar hafa orðið á afkomu fyrirtækja í þessum geira á stuttum tíma, en hagnaður fyrirtækjanna árið 2015 var 7,4%. Nú skila þau að meðaltali tapi upp á 1,7% af tekjum.

Frá fundinum í höfuðstöðvum KPMG í Borgartúni í morgun.
Frá fundinum í höfuðstöðvum KPMG í Borgartúni í morgun. mbl.is/Eggert

Alexander sagði að af samtölum sínum við stjórnendur í hópbílabransanum væri ljóst að árið hafi verið krefjandi hingað til og að áframhaldandi tap væri á rekstrinum, þrátt fyrir að tölur um það hefðu ekki fengist.

Hagræðing stendur yfir hjá hópbílafyrirtækjum, þau hafa verið að fækka starfsmönnum með uppsögnum, dregið úr fjárfestingum í hópbílum og horfa til þess að fækka bílum, en alls voru 3.095 hópbifreiðar í umferð á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK