WOW air áfram íslenskt

Wow air verður áfram íslenskt félag.
Wow air verður áfram íslenskt félag.

WOW air mun áfram starfa á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis, að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur upplýsingafulltrúa félagsins. Á meðan svo er er ljóst að bandaríska fjárfestingarfélagið Indigo Partners, sem í gær var sagt ætla að fjárfesta fyrir allt að 9,3 milljarða í WOW, getur aldrei orðið meirihlutaeigandi að félaginu.

Reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins kveður á um að evrópskir aðilar verði að eiga meira en helmingshlut í félögum sem rekin eru á grundvelli flugrekstrarleyfis sem veitt er innan Evrópska efnahagssvæðisins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt tilkynningu á vef WOW er fjárfesting Indigo háð ýmsum skilyrðum, eins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem ekki er lokið, og samþykki skuldabréfaeigenda WOW air um skilmálabreytingar bréfanna. Grunnleiðakerfi WOW helst óbreytt, samkvæmt upplýsingum frá félaginu, en vélum félagsins hefur verið fækkað úr 20 í 11.

Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, telur að fari svo að WOW takist ekki að sækja fjármögnun, gæti ferðamönnum fækkað um 20% á næsta ári.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir