Amazon nú verðmætasta fyrirtækið

Amazon hefur steypt Microsoft af stóli sem verðmætasta fyrirtæki í ...
Amazon hefur steypt Microsoft af stóli sem verðmætasta fyrirtæki í heimi. AFP

Amazon hefur tekið fram úr Microsoft sem verðmætasta fyrirtæki í heimi. Við lokun markaða í gær var netrisinn metinn á 797 milljarða Bandaríkjadala, andvirði rúmlega 95 þúsund milljarða íslenskra króna, en verðmæti bréfa Microsoft er 789 milljarðar Bandaríkjadala, andvirði um 94 þúsund milljarða íslenskra króna, að því er segir í umfjöllun BBC.

Fyrirtækin eru hvort um sig verðmætari en samanlögð verg landsframleiðsla Íslands, Noregs og Danmerkur samkvæmt tölum Alþjóðabankans.

Flökt á hlutabréfum

Jeff Bezos, stofnandi Amazon, er nú ríkasti einstaklingur í heimi með skráðar eignir upp á 135 milljarða Bandaríkjadala, andvirði 16,1 milljarðs íslenskra króna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Amazon mælist verðmætasta fyrirtækið, en gengi hlutabréfa tæknifyrirtækja vestanhafs hefur verið flöktandi undanfarna mánuði.

Microsoft tók við sætinu sem verðmætasta fyrirtæki heims í síðasta mánuði af Apple, en hlutabréf þess síðarnefnda hafa fallið nokkuð að undanförnu.

Fyrirtækið var stofnað árið 1994 í bílskúr í Seattle í Bandaríkjunum og bar þá nafnið Cadabra, eins og í abracadabra, ensku útgáfunni af hókus pókus. Fyrst um sinn sneri reksturinn að sölu notaðra bóka, en selur nú mun víðtækari vöruflokka eins og matvæli og fatnað.

Amazon framleiðir einnig afþreyingarefni og hefur sýningarrétt íþróttaviðburða, þar á meðal úrvalsdeildarinnar í enska boltanum. Þá hefur fyrirtækið þróað Kindle fyrir rafbækur og Alexa sem gerir notendum kleift að stýra snjalltækjum, sjónvörpum, lýsingu og fleira með raddbeitingu.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir