Fjárfestasvik hafa nær tvöfaldast

Fjárfestasvikum fer fjölgandi hér á landi.
Fjárfestasvikum fer fjölgandi hér á landi. mbl.is/Golli

Málafjöldi vegna fjárfestasvika hér á landi hefur nú þegar aukist um 77% frá fyrra ári þrátt fyrir að árið 2019 sé aðeins rétt ríflega hálfnað. Fjárfestasvik eru nú algengust netsvikin hér á landi en þeim er beint að reyndum sem óreyndum fjárfestum og felast þau t.d. í tölvupósti, óvæntu símtali eða skilaboðum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landsbanka Íslands.

Í flestum tilvikum er um að ræða gylliboð um kaup á verðmætum af einhverju tagi. Oft er einstaklingum boðið „besta tækifæri ársins“ til að fjárfesta í rafmynt eða fyrirtækjum sem hvergi má finna með góðu móti. Í kjölfarið heldur fjárfestirinn því fram að hann þurfi ekki starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi og sýnir jafnvel fram heimild stjórnvalda eða fjármálaeftirlitsins í eigin heimalandi. Sé betur að gáð reynast allar slíkar fullyrðingar rangar.

Svikarinn reynir allt hvað hann getur til að sannfæra fórnarlambið um að millifæra fjármuni inn á tiltekinn bankareikning. Gefur hann þær skýringar að með þessu sé verið að leggja fé í arðbæra fjárfestinu eða sjóð. Öll slík loforð reynast á endanum vera fölsk.

Halda fundi fyrir áhugasama fjárfesta

Yfirleitt hefjast mál sem þessi á því að svikarinn hefur samband við væntanlegt fórnarlamb undir fölsku flaggi. Hann segist t.d. vera verðbréfamiðlari eða sölustjóri hjá sjóðastýringarfyrirtæki sem vilji bjóða upp á gjaldfrjálsa fjárfestingarráðgjöf. Í kjölfarið hefur hann söluræðu þar sem hann heldur því fram að áhætta af tiltekinni fjárfestingu sé óvenju lítil. Tilboðin hljóma afar freistandi og fátt bendir til annars en að þau séu fullkomlega lögmæt. Til eru dæmi þess að fólki sé jafnvel vísað á vefsvæði þar sem fylgjast má með þróun fjárfestinga í rauntíma.

Þá er vitað til þess að haldnir hafi verið fjárfestafundir þar sem svikafyrirtækið kynnir aragrúa spennandi fjárfestingatækifæra að viðstöddum hópi áhugasamra fjárfesta. Um nokkurs konar söluráðstefnu og eru slíkir fundir ýmist haldnir erlendis eða á netinu, sem er algengara.

Slíti fórnarlamb ekki samskiptum með afgerandi hætti  eykst áreitið og verður jafnvel viðvarandi. Stöðugt er farið fram á meiri fjárframlög auk þess sem óskað er eftir greiðsluþátttöku fórnarlambsins í ýmsum útlögðum kostnaði. Mikilvægt er að slitið sé á samskipti sem þessi sem allra fyrst sökum þess að engin leið er að endurheimta fjárframlögin.

Á vef Landsbankans eru viðskiptavinir hvattir til að vera á varðbergi gagnvart netsvikum af öllu tagi. Þá er fólk hvatt til að beita heilbrigðri skynsemi og hafna boðum sem hljóma of góð til að vera sönn.  

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK