Hagsmunaárekstur þaggaður niður

Stefni var ekki kunnugt um ráðgjöf lykilstarfsmanns við söluna á ...
Stefni var ekki kunnugt um ráðgjöf lykilstarfsmanns við söluna á Hópbílum til keppinauta. Eggert Jóhannesson

Stjórn og forsvarsmenn sjóðastýringafyrirtækisins Stefnis þögguðu niður hagsmunaárekstur sem kom upp í tengslum við störf forstöðumanns hlutabréfa hjá fyrirtækinu í árslok 2016. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að stjórn fyrirtækisins hafi talið reglur fyrirtækisins ásamt reglugerð um skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða þverbrotnar í málinu.

Að lokum hafi hins vegar verið tekin ákvörðun um að láta kyrrt liggja á vettvangi fyrirtækisins. Heimildir ViðskiptaMoggans herma hins vegar að málinu hafi einnig verið vísað til Fjármálaeftirlitsins sem aftur hafi vísað því áfram til lögreglu. Afdrif málsins á þeim vettvangi eru ekki þekkt.

Tildrög málsins má rekja til þess að í ársbyrjun 2017 var Guðjón Ármann Guðjónsson, sem þá hafði nýlega látið af starfi forstöðumanns hlutabréfa hjá Stefni, ráðinn forstjóri Hópbíla. Um tveimur mánuðum fyrr hafði Horn III, sem er framtakssjóður í stýringu hjá Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans og einum helsta keppinaut Stefnis, sem er í eigu Arion banka, keypt Hópbíla og Hagvagna af Gísla J. Friðjónssyni og fjölskyldu hans. Þegar þau viðskipti gengu í gegn var forsvarsmönnum Stefnis ekki kunnugt um að Guðjón Ármann hafi verið ráðgjafi við söluna á Hópbílum til Horns III.

Þrátt fyrir reglur sem kváðu á um að honum bæri að upplýsa Stefni um þá ráðgjöf var því ekki sinnt af hans hálfu. Þykir málið allt hið versta fyrir Stefni þar sem 35% hlutur í Kynnisferðum, einum helsta keppinaut Hópbíla, er í eigu sjóðs sem er í stýringu hjá Stefni. Upplýsingar sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum benda til þess að félag í eigu Guðjóns Ármanns hafi þegið tugi milljóna króna fyrir ráðgjöfina við sölu fyrirtækisins sem hann skömmu síðar var gerður að forstjóra yfir.

Ítarlega er fjallað um málið í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK