Ekkert vandamál að fá flugvélar

Stofnendur og forsvarsmenn flugfélagsins Play. (f.v.) Þóroddur Ari Þóroddsson, Bogi …
Stofnendur og forsvarsmenn flugfélagsins Play. (f.v.) Þóroddur Ari Þóroddsson, Bogi Guðmundsson, Arnar Már Magnúson og Sveinn Ingi Steinþórsson. mbl.is/​Hari

Flugfélagið Play verður byggt upp á gömlum grunni með sérþekkingu frá WOW air, þar sem fólk er búið að fara í gegnum ákveðin mistök og læra af þeim þannig að hægt sé að setja upp sjálfbæran rekstur til framtíðar. Þetta segja þeir Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs félagsins og Þóroddur Ari Þóroddsson, meðstofnandi og stjórnarformaður, í samtali við mbl.is beint eftir að félagið var kynnt til sögunnar í Perlunni í dag.

Bogi hefur rekið lögmannsstofu undanfarin 10 ár og þá var hann einn þeirra sem keypti félagið Bus travel Iceland árið 2015 og hefur komið að enduruppbyggingu þess. Þóroddur hefur hins vegar verið ráðgjafi í flugvélaviðskiptum undanfarna áratugi og var þar áður hjá Bank of America.

Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og lögfræðisviðs.
Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og lögfræðisviðs. mbl.is/​Hari

Upphaflega eftir fall WOW air komu nokkrir úr stjórnendateymi WOW air saman til að skoða að byggja upp nýtt flugfélag og segir Bogi að þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs nýja félagsins, og Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, hafi komið að máli við sig sem sérfræðings í endurskipulagningu fyrirtæka og í að sækja fjármagn. Hann hafi í framhaldinu haft samband við Þórodd, sem sé frændi sinn, og í framhaldinu hafi boltinn farið að rúlla.

Segir Bogi að ljóst sé að eftirspurn eftir Íslandi sé fyrir hendi. Hingað vilji ferðamenn koma, en að eftir að WOW air féll, með sínar 20 flugvélar í rekstri, hafi orðið mikill samdráttur hjá t.d. dagsferðarfyrirtækjum. Það sé því augljóst að fall WOW air hafi haft mikil íþyngjandi áhrif.  

Á kynningarfundinum í morgun var tilkynnt að félagið myndi notast við Airbus A320 vélar og að það hefði þegar tryggt sér tvær vélar í reksturinn nú í vetur og fjórar til viðbótar næsta vor. Þóroddur segir að þessar vélar hafi verið augljóst val, enda henti þær vel fyrir það sem eigi að gera. Þær séu langdrægar, með ríflegt fraktrými og svo sé þegar búið að þjálfa mikinn fjölda fólks upp á þessar vélar, en WOW air notaðist einmitt við sambærilegar vélar. Segir hann að það hjálpi mikið, enda sé þjálfunarkostnaður gríðarlegur og ljóst er að félagið mun horfa til að næla í fyrrverandi flugmenn WOW.

Þóroddur Ari Þóroddsson, meðstofnandi og stjórnarformaður Play.
Þóroddur Ari Þóroddsson, meðstofnandi og stjórnarformaður Play. mbl.is/​Hari

Arnar Már tók þó fram á kynningarfundinum að íslenskir samningar yrði við flugáhafnir, en að félagið væri opið fyrir að fá starfsfólk bæði frá Íslandi og erlendis frá.

Spurðir út í hvort erfitt hafi verið að fá leigðar flugvélar til rekstursins í ljósi þess fjölda Boeing MAX-8 flugvéla sem hafa verið kyrrsettar segir Þóroddur að svo sé ekki. Hafi flugfélög fjármagn og viðskiptaáætlun og stjórnendateymi sem flugleigjendur hafi trú á, þá sé ekkert vandamál að fá flugvélar og segir hann engan skort á flugvélum almennt á markaðinum.

Á kynningarfundinum kom fram að breskt fjárfestingafélag kæmi með 80% fjárfestingu í félaginu, en íslenskir aðilar með 20%. Var ekki nánar gefið upp um fjármögnunina að svo stöddu, en Arnar sagði að fjármögnun til lengri tíma væri tryggð. Spurðir út í hvort stofnendurnir hefðu lagt mikla fjármuni undir segir Bogi að þeir hafi sjálfir lagt til umtalsvert fjármagn til að koma félaginu af stað. Hins vegar sé þar ekki um að ræða stóru upphæðirnar í samhengi við að fjármagna félagið í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK