Ericsson í klóm heimslögreglunnar

Höfuðstöðvar Ericsson í Kista, utan við Stokkhólm.
Höfuðstöðvar Ericsson í Kista, utan við Stokkhólm. AFP

„Við höfum haft ákveðna yfirmenn á sumum markaðssvæðum sem komu illa fram og innleiddu meðvitað ekki regluverk.“ Þetta segir Börje Ekholm forstjóri sænska fjarskiptafyrirtækisins Ericsson. Greint var frá því á dögunum að fyrirtækið hefði fallist á að greiða bandarískum yfirvöldum um einn milljarð bandaríkjadala, jafnvirði 122 milljarða króna, í sekt vegna mútugreiðslna sem fyrirtækið stundaði í fimm ríkjum, Kína, Djibútí, Indónesíu, Kúveit og Víetnam.

„Við höfum ekkert umburðarlyndi gagnvart spillingu og munum ráðast í aðgerðir gegn brotum á okkar regluverki,“ segir forstjórinn í samtali við SVT, en á þó sennilega við bandarískt regluverk, enda fyrirtækið ekki sektað fyrir brot á eigin reglum.

Umræddur forstjóri, Ekholm, tók við stöðunni í ársbyrjun 2017, en hann hefur þó setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2006. Hann firrar sig þó allri ábyrgð. „Maður verður að taka ábyrgð þegar maður verður einhvers var, og það var ekki fyrr en 2016 sem við höfðum ástæðu til að ætla að regluverk okkar virkaði ekki,“ segir hann. Rannsókn bandarískra yfirvalda hafði þó hafist þremur árum fyrr.

En hvers vegna Bandaríkin?

Frida Bratt, hagfræðingur hjá Nordnet, segir í samtali við SVT að amerískt fjármálaeftirlit hegði sér sem „efnahagslögregla heimsins“. Hafi viðskipti átt sér stað í dollurum, stundað viðskipti við bandaríska banka eða haft starfsemi í Bandaríkjunum, geti þarlend yfirvöld hafið réttarferli, og þau fyrirtæki sem ekki uni úrskurði þeirra eigi yfir höfði sér „dollarabann“ (s. dollarförbud). Slíkt komi alþjóðlegum fyrirtækjum ekki vel.

Hlutabréfaverð í Ericsson féll um tvö prósent við opnun markaða á fimmtudag, en náði sér fljótt á strik aftur og virðast fjárfestar hafa verið viðbúnir yfirlýsingunni. Fyrirtækið hafði enda þegar í september tekið frá um rúman milljarð dala til að mæta sektinni, og gaf sjálft út yfirlýsingu um brotin í gærkvöld.

„Ekholm forstjóri hefur gert sitt besta til að undirbúa markaðinn og verið opinn með brotin. Starf hans er hreinsunarstarf, og því hafa hlutabréfin ekki fallið meira,“ segir Frida Bratt.

Áhyggjur af álitshnekkjum sænsks viðskiptalífs

Ekki eru þó allir jafnánægðir með framgöngu forstjórans. Johanna Cervenka, viðskiptafréttaritari SVT, segir óeðlilegt að Ekholm axli ekki ábyrgð á framferði fyrirtækisins, hafandi verið í stjórn þess í rúm tíu ár. „Ég tel að það séu spurningar sem stjórn fyrirtækisins hefði átt að spyrja sig miklu fyrr,“ segir Cervenka. 

Hún segir viðskiptahætti fyrirtækisins til þess fallna að koma óorði á allt sænskt viðskiptalíf, ekki aðeins fyrirtækið sjálft. „Við höfum alltaf sagt að Svíþjóð sé ekki spillt land, en það stemmir greinilega ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK