Íslendingum fækkar hlutfallslega meira

Velta tengd farþegaflutningum með flugi lækkaði um 22%, eða um …
Velta tengd farþegaflutningum með flugi lækkaði um 22%, eða um 64 milljarða. mbl.is/Eggert

Farþegum sem komu til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll í desember fækkaði um 10% og voru tæplega 169 þúsund samanborið við tæplega 187 þúsund í sama mánuði árið áður. Þar af fækkaði farþegum með erlent ríkisfang um 9% á meðan farþegum með íslenskt ríkisfang fækkaði um 12%.

Heildarfarþegafjöldi til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll árið 2019 dróst saman um 13% samanborið við 2018. Farþegum með erlent ríkisfang fækkaði úr rúmlega 2,3 milljónum í tæplega 2 milljónir, eða um 14%, á sama tíma og farþegum með íslenskt ríkisfang fækkaði um 9%, úr tæplega 670 þúsund í 610 þúsund.

Virðisaukaskattskyld velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu í september og október á síðasta ári nam 106 milljörðum króna. Lækkaði hún um 8% frá sama tímabili árið áður þegar hún nam 115 milljörðum. Lækkaði velta í öllum einkennandi greinum ferðaþjónustu á þessu tímabili. Velta bílaleiga lækkaði hlutfallslega mest, eða um 16%, á meðan velta í farþegaflutningum á landi lækkaði um 11% og velta tengd farþegaflutningum með flugi lækkaði um 10%.

Veltan dróst saman um 64 milljarða

Sé virðisaukaskattskyld velta á tímabilinu nóvember 2018 til október 2019 borin saman við síðustu 12 mánuði þar áður lækkaði veltan um 9%, eða um 62 milljarða á milli ára. Á sama tímabili lækkaði velta tengd farþegaflutningum með flugi um 22%, eða um 64 milljarða.

Gistinóttum í nóvember fjölgaði um 4% borið saman við sama mánuð í fyrra, eða um rúmar 23 þúsund. Fjölgunina má rekja að mestu leyti til gistinótta á hótelum sem fjölgaði um rúmlega 16 þúsund á sama tímabili. Framboð hótelherbergja jókst einnig á sama tímabili um 7% á meðan nýtingarhlutfall þeirra stóð í stað.

Þetta kemur fram í skammtímahagvísum ferðaþjónustu sem Hagstofa Íslands gefur út um gistinætur og virðisaukaskattskylda veltu í einkennandi greinum ferðaþjónustu. 

Hér er hægt að skoða tölurnar 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK