Festi kaupir ÍOM og horfir á raforkumarkaðinn

N1 er dótturfélag Festi á sviði eldsneytis og orku.
N1 er dótturfélag Festi á sviði eldsneytis og orku. Ljósmynd/Aðsend

Festi hf., móðurfélag N1 og Krónunnar, hefur keypt allt hlutafé í Íslenskri orkumiðlun ehf., en félagið var stofnað árið 2017 og er með leyfi til að stunda raforkuviðskipti. Kaupverð alls hlutafjárins er 850 milljónir, en Festi átti fyrir 15% í félaginu og er fjárfestingin nú því upp á 722,5 milljónir. Verður kaupverðið greitt með hlutum í Festi og með reiðufé við afhendingu. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fram kemur í tilkynningunni að ÍOM hafi um 7% markaðshlutdeild og að stór hluti aðila á markaði sem hafi skipt um orkusala síðustu tvö ár hafi farið yfir til ÍOM. Félagið hafði rekstrartekjur upp á tæplega 1,4 milljarða á síðasta ári og jukust rekstrartekjur um ríflega 45% á milli ára. Viðskiptavinir í sjávarútvegi eru stærstu viðskiptavinir félagsins.

„N1 er orkusali Festi-samstæðunnar og mun starfsemi Íslenskrar orkumiðlunar færast undir N1. N1 bætir þannig við þá sölu sem fyrir er, annars vegar jarðefnaeldsneytis og hins vegar endurnýjanlegra orkugjafa, bæði til fyrirtækja og almennings,“ er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra Festi.

Festi á og rekur eldsneytis- og orkufyrirtækið N1, en með kaupunum er ljóst að N1 ætlar að færa sig frekar yfir á raforkumarkaðinn. „N1 ætlar sér að vera leiðandi í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi. Við sjáum mikil tækifæri í sölu á raforku til heimila og fyrirtækja og viljum halda áfram okkar vegferð að einfalda lífið fyrir viðskiptavini N1. N1 keypti Hlöðu á síðasta ári og með kaupum á ÍOM erum við komnir með alla innviði til að taka fullan þátt í raforkusölu og getum t.a.m. þjónustað rafbílaeigendur bæði með búnað og raforku,“ er haft eftir Hinrik Erni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra N1.

Haft er eftir Magnúsi Júlíussyni, framkvæmdastjóra og annars stofnanda ÍOM, að það hafi verið spennandi vegferð að byggja upp orkusölufyrirtækið.

Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar.
Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar. mbl.is/​Hari
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK