Síminn áfrýjar og neyðist mögulega til að hækka áskrift

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins virðist við fyrstu skoðun, að mati Símans, geta …
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins virðist við fyrstu skoðun, að mati Símans, geta leitt til þess að Símanum verði nauðugur einn kostur að hækka áskrift að sjónvarpsefni verulega. mbl.is/Hari

Síminn hyggst áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því fyrr í dag, sem lýtur að því að Síminn hefði brotið gegn ákvörðunum eftirlitsins frá 2015 og skuli greiða stjórnvaldssekt að upphæð 500 milljónir króna til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. 

Frétt mbl.is

Fram kemur í tilkynningu Símans að fyrirtækið telji ákvörðunina ekki aðeins mikil vonbrigði heldur einnig skaðlega fyrir samkeppni í landinu. „Að mati Símans skýtur það afar skökku við, nú þegar loks er til staðar hörð samkeppni um sýningu á íþróttaefni hér á landi, að Samkeppniseftirlitið telji rétt að beita Símann háum fjársektum vegna sams konar pakkatilboða og tíðkuðust yfir áratugaskeið af þeim aðila sem hefur verið markaðsráðandi á áskriftarsjónvarpsmarkaði um árabil, 365 (nú Sýn), en þetta mál er einmitt til komið vegna kvörtunar Sýnar.“

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins mun hafa neikvæð áhrif á afkomu Símans þar sem sektin verður gjaldfærð á öðrum ársfjórðungi. Ný EBITDA-spá Símans fyrir árið 2020 er 9,9 – 10,3 milljarðar króna að teknu tilliti til sektarinnar.

Telur fyrirtækið ekki hafa brotið samkeppnislög

Síminn telur að í ákvörðuninni felst ekki að fyrirtækið hafi brotið gegn samkeppnislögum heldur er Síminn talinn hafa brotið að formi til gegn tilteknum skilyrðum í tilteknum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins frá fyrri árum. 

Síminn bendir á að verð á enska boltanum hefur ekki aðeins lækkað til neytenda eftir að Síminn tók við sýningarréttinum heldur hafa fleiri heimili aðgang að þjónustunni en nokkru sinni fyrr. 

„Neytendur hér á landi hafa aldrei áður haft jafn greiðan aðgang að enska boltanum, á jafn hagkvæmu verði,“ segir í tilkynningu Símans. Það kann nú að breytast þar sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins virðist við fyrstu skoðun geta leitt til þess að Símanum verði nauðugur einn kostur að hækka áskrift að sjónvarpsefni verulega, að því er segir í tilkynningunni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK