Óskar eftir óháðri rannsókn

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að samantekt sín um málefni Icelandair, Landssímareitsins og Lindarvatns ehf. kalli á að óháð rannsókn á málinu fari fram. 

Í síðustu viku sagði Ragnar að margt benti til þess að Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, og Davíð Þor­láks­son, for­stöðumaður hjá sam­tök­un­um, hefðu beitt sér fyr­ir því að líf­eyr­is­sjóðir end­ur­fjármögnuðu fé­lagið Lind­ar­vatn ehf. árið 2016 sem bygg­ir nú hót­el á Lands­s­ímareitn­um við Aust­ur­völl.

Þeir segja ásak­an­irn­ar ósann­ar og vilja að Ragn­ar Þór dragi full­yrðing­ar sín­ar til baka og biðji hlutaðeig­andi af­sök­un­ar, ella sé „óhjá­kvæmi­legt að þau sem hafa orðið fyr­ir órök­studd­um dylgj­um hans íhugi rétt­ar­stöðu sína“.

Ragnar dregur fram það sem hann segir „Staðreyndir og spurningar um Icelandair, Landssímareitinn og Lindarvatn ehf.“ í aðsendri grein í Kjarnanum í dag.

Þar ítrekar Ragnar, það sem hann hefur áður sagt, að verðmæti Lindarvatns hafi fjórfaldast á átta mánuðum frá árslokum 2014 til ágústmánaðar 2015:

Þannig virð­ist verð­mæti Lind­ar­vatns hafa auk­ist á þeim 8 mán­uðum sem það var í eigu Dals­nes[s] um 2.900 m.kr., þ.e. úr um 930 m.kr. í árs­lok 2014 í um 3.800 m.kr. m.v. virði sam­kvæmt kaup­samn­ingi í ágúst 2015. Dals­nes, í eigu Ólafs Björns­son­ar, færir hagnað upp á 1.000 m.kr. vegna sölu á 50% eign­ar­hlut á árinu 2015. Engar skýr­ingar eru á því af hverju hagn­aður Dals­nes[s] er 1.000 m.kr. af söl­unni en ekki 1.900 m.kr. Í árs­lok 2015 er 50% eign­ar­hlutur Dals­nes[s] svo met­inn á 854 m.kr.,“ skrifar Ragnar.

Hann bendir á að á haustdögum 2015 hafi Davíð Þorláksson verið ráðinn framkvæmdastjóri Lindarvatns. Á þeim tíma var Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Icelandair Group, einnig formaður SA og Bogi Nils Bogason, núverandi forstjóri Icelandair, fjármálastjóri fyrirtækisins. Halldór Benjamín starfaði hjá Icelandair til ársins 2017 og var hann, samkvæmt grein Ragnars, í stjórn Lindarvatns fram í apríl 2017.

Ragnar segir að Halldór, Davíð og Bogi hafi allir verið í yfirmannsstöðum hjá Icelandair þegar IG keypti 50% hlut í Lindarvatni og samstæða IG gerði leigusamning við Lindarvatn. „Þá koma þeir beint að rekstri Lind­ar­vatns f.h. IG í kjöl­far kaupanna, Hall­dór og Bogi sem stjórn­ar­menn og Davíð sem fram­kvæmda­stjóri,“ skrifar Ragnar.

Eins og áður hefur komið fram beina Halldór Benjamín og Davíð því til Ragnars Þórs að hann dragi fullyrðingar sínar til baka. Engum, hvorki hjá SA né Icelanda­ir, myndi detta í hug að beita líf­eyr­is­sjóð þrýst­ingi þegar kem­ur að fjár­fest­ing­ar­ákvörðunum þeirra. Það væri enda bæði ólög­legt og ósiðlegt. „Þessi mörk eru skýr og óbrjót­an­leg í huga flestra og í lands­lög­um.

Ragnar spyr á móti að ef Halldór og Davíð komu ekkert að ákvörðun um fjárfestinguna vakni spurningar um á hvaða forsendum þeir hafi verið valdir af IG til að taka sæti í stjórn og framkvæmdastjórn Lindarvatns í kjölfar fjárfestingarinnar.

Hvaða reynslu höfðu þeir Hall­dór og Davíð af fast­eigna­þró­un? Hafa ber í huga að almennt er yfir­lög­fræð­ingur stór[r]a alþjóð­legra fyr­ir­tækja á mark­aði, ekki einnig fram­kvæmda­stjóri í dótt­ur­fé­lagi. Almennt mætti telja að staða yfir­lög­fræð­ings Icelanda­ir, svo ekki sé talað um fjár­mála­stjóra, væri fullt starf sem gæfi ekki tíma til þess að sinna fram­kvæmda­stjórn eða stjórn­ar­setu vegna fast­eigna­þró­un­ar­verk­efn­is. Einnig vakna spurn­ingar um hvort þessi skipan telj­ist til góðra stjórn­ar­hátta?“ skrifar Ragnar.

Sam­an­tekt þessi hlýtur að kalla á óháða rann­sókn á mál­inu í heild sinni. Hvernig getur virði Lind­ar­vatns hækkað úr 934 m.kr. í 3.800 m.kr. á 8 mán­uð­um? Hverjar voru for­sendur við­skipt­anna? Hver er skuld­bind­ing IG vegna leigu­samn­ings um fast­eignir á Lands­símareit? Fjár­festar hljóta að gera kröfu um að allar upp­lýs­ingar um þetta mál verði opin­ber­ar áður en þeir taka þátt í hluta­fjár­út­boði,“ segir Ragnar enn fremur en greinina má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK