Höfnuðu áskrift sem samsvarar tilboði Michelle

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Icelandair hafnaði tilboði sem nam 7 milljörðum króna í hlutafjárútboði sem kláraðist í gær. Athygli vekur að sú upphæð kemur heim og saman við áskrift Michelle Roosevelt Edwards sem áður hefur verið kennd við WOW-air. 

„Ég get ekki tjáð mig um einstaka áskriftir,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair um það. „Stjórn Icelandair hefur heimild til þess að kanna fjármögnun áskrifta í hlutafjárútboðinu og það var gert í nokkrum tilvikum. Hins vegar fannst ástæða til þess í einu tilviki að hafna áskrift. En ég ítreka það að ég get ekki tjáð mig um einstaka áskriftir.“

Bogi segir mjög gleðilegt og jákvætt hve hlutafjárútboð félagsins gekk vel í gær. Hann segir félagið nú tilbúið til þess að haga framboði sínu eftir eftirspurn sem skapist vonandi þegar kórónuveirufaraldrinum slotar. Hann segir einnig að hagsmunir starfsmanna Icelandair séu samtvinnaðir hagsmunum félagsins og því sé jákvætt að sátt hafi náðst við samtök launafólks. 

„Þetta er mjög gleðilegt og jákvætt,“ segir Bogi. Eftirspurnin var umfram framboð og bárust áskriftir, samtals að fjárhæð 37,3 milljarðar króna en til sölu voru boðnir hlutir í félaginu að andvirði 20 milljarða.

Frá hluthafafundi Icelandair á Hilton Nordica í síðustu viku.
Frá hluthafafundi Icelandair á Hilton Nordica í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum núna sveigjanleika til þess að takast á við þær aðstæður sem við búum við núna og munum vera tilbúin til þess að fara af stað ef ferðavilji og eftirspurn tekur kipp.“

Jákvætt að náðst hafi sátt

Greint var frá því á mbl.is nýverið að Icelandair, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Flugfreyjufélag Íslands hefðu skrifað undir sameiginlega viljayfirlýsingu þess efnis að farið verði eftir leikreglum um góð samskipti milli aðila á vinnumarkaði.

Þetta var gert eftir að upp spratt deila milli samtaka launafólks og Icelandair um réttmæti þeirrar aðgerðar að segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum félagsins í miðjum kjaraviðræðum 17. júlí.

„Þetta var gríðarlega erfið ákvörðun fyrir félagið á sínum tíma. Hagsmunir Icelandair eru samtvinnaðir hagsmunum starfsmanna félagsins og því er mjög jákvætt að náðst hafi sátt í málinu,“ segir Bogi.

Útlit var fyrir að ákvörðun Icelandair um að ráðast í uppsagnirnar, sem síðar voru dregnar til baka, yrði stefnt fyrir félagsdóm. Því hefur nú verið afstýrt.

Styttist í MAX-vélarnar

„Við gerum ráð fyrir að MAX-vélarnar fari í loftið næsta vor. Flugprófanir hafa staðið yfir og fregnir af þeim verið góðar.“

Líkt og kunnugt er voru Boeing MAX-vélar allra flugfélaga heims kyrrsettar í mars á síðasta ári eftir tvö flugslys sem kostuðu 346 lífið.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK