FME að grípa inn í ef traust bregst

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, vera í fullum rétti að lýsa vantrausti á alla þá sem honum sýnist, en hún hafi verið skipuð fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins í stjórn lífeyrissjóðsins og verið metin hæf af Fjármálaeftirlitinu. Því beini hún öllum yfirlýsingum, líkt og þeirri sem Ragnar setti fram í dag um vanhæfi hennar, til Fjármálaeftirlitsins sem verði að meta hvort skipta beri henni út.

„Ef ég hef í mínum störfum brugðist trausti sem til mín er borið verða þeir að grípa til aðgerða,“ segir hún um FME, en lífeyrissjóðurinn er eftirlitsskyldur aðili. „En ég hef reynt eftir fremsta megni að vera heiðarleg og setja hagsmuni sjóðsfélaga í öndvegi. Enda er ég sjálf sjóðsfélagi og á öll mín lífeyrisréttindi þar.

Ragnar lýsti vantrausti á hana í dag vegna ummæla Guðrúnar eftir að ljóst varð að lífeyrissjóðurinn hefði ákveðið að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Sagði Guðrún í viðtali við Vísi að eignir lífeyrissjóðsins væru um 950 milljarðar og fjárfesting upp á 2,4 milljarða hefði því verið 0,2% af eignasafninu. Ragnar taldi þetta meðal annars ástæðu fyrir vantrausti: „Í ljósi stöðu sinnar og fyrri yfirlýsinga hlýtur Fjármálaeftirlitið að komast að þeirri niðurstöðu að Guðrún Hafsteinsdóttir sé vanhæf til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs með því að réttlæta fjárfestingu í Icelandair vegna þess hversu lítið hlutfall hún er af heildareignum,“ sagði Ragnar.

Guðrún segir við mbl.is að eins og með annað væri það Fjármálaeftirlitsins að meta ummæli hennar og hæfi.

Í dag sagði einnig Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að til skoðunar væru ákvarðanir lífeyrissjóða í tengslum við þátttöku í útboðinu og tók svo fram að stjórn­ir líf­eyr­is­sjóða væru skipaðar af hags­munaaðilum sem svo taka ákv­arðanir um fjár­fest­ing­ar. „Sem að mínu viti ættu að vera tekn­ar ann­ars staðar,“ sagði hann og síðar: „Eðli­legt er að stjórn­ir ákv­arði fjár­fest­inga­stefnu og hafi skoðun á hverju sjóðirn­ir eigi að fjár­festa í. En þegar kem­ur að ein­stök­um fjár­fest­inga­kost­um þá er ákveðin hætta á að aðrir hags­mun­ir en hags­mun­ir sjóðsfé­laga ráði för­um.“

Ánægð með núverandi fyrirkomulag

Spurð út í þessi orð Ásgeirs segir Guðrún að hún sé þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðakerfið eigi að vera í stöðugri skoðun, en líka að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé eitt hið öflugasta í heiminum. Spurð nánar út í þá framkvæmd að verkalýðsfélög og atvinnurekendur velji helming stjórnarmanna hvort í þeim lífeyrissjóðum sem eru undir samningssviði Samtaka atvinnulífsins, í stað þess til dæmis að sjóðsfélagar kjósi stjórnina beint, segir Guðrún að hún hafi verið ánægð með það fyrirkomulag og sé hlynnt því að launþegar og atvinnurekendur skipi í stjórnirnar „Þetta er á margan hátt jákvætt. Ef það myndast fylkingar getur hvorug fylkingin knúið fram ákvörðun með hæpnu umboði,“ segir hún. „Með þessu þurfa aðilar að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það er jákvætt og það er nauðsynlegt að stjórnir séu samtaka í sínum störfum þó brotið geti á.“ Tekur hún fram að í þessum sjóðum sé þessi skipun stjórnanna hluti af kjarasamningum.

„Við eigum ekki að vera hrædd eða feimin að fjárfesta í uppbyggingu hér á landi

Ragnar Þór sagði fyrr í dag við mbl.is að æskilegt væri að auka fjárfestingu sjóðanna erlendis. Guðrún segir að hún hafi áður talað fyrir því að sjóðirnir þyrftu að fara meira erlendis og fjárfesta. Það hafi einnig verið raunin undanfarin ár. En hins vegar verði líka að horfa til þess að með því sé verið að fjárfesta í erlendu atvinnulífi og uppbyggingu erlendis. „Við eigum ekki að vera hrædd eða feimin að fjárfesta í uppbyggingu hér á landi, styðja við atvinnulífið hér á landi þannig að góð og öflug fyrirtæki verði hér til með þúsundum starfa.“ Segir hún því að 50% hámark á erlendar fjárfestingar sjóðanna sé að sínu mati fínt viðmið og ásættanlegt fyrir sjóðina.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK