Árni og Linda innleysa 185 milljóna hagnað

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, og Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri félagsins.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, og Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri félagsins. Samsett mynd

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, og Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri félagsins, hafa leyst út samtals 185 milljóna króna hagnað með sölu hlutabréfa í félaginu á síðustu viku eftir að hafa nýtt sér kauprétt upp á samtals 805.326 hluti í félaginu. Linda á þar að auki enn inni bréf vegna kaupréttarins upp á 112,5 milljónir að markaðsvirði og Árni upp á tæplega 6 milljónir.

Tilkynnt var að Árni og Linda hefðu nýtt sér kaupréttina með tilkynningu til Kauphallarinnar 27. október. Var um að ræða kauprétti sem voru veittir árin 2014, 2015 og 2017 á grundvelli starfskjarastefnu Marels.

Linda keypti samtals 527.317 hluti á meðalgenginu 1,825 evrur á hlut. Miðað við meðalgengi evru þann daginn var um að ræða kaup fyrir 159 milljónir. Árni Oddur keypti 278.009 hluti á meðalgenginu 2,349 evrur á hlut, eða fyrir 108 milljónir.

Dagslokagengi bréfa í Marel þennan dag var 735 krónur á hlut, en ef miðað er við miðgengi evru á móti krónu þennan dag keypti Linda bréfin á 301,49 krónur á hlut og Árni Oddur á 388,05 krónur á hlut.

Þremur dögum síðar, eða 30. október, var svo tilkynnt til Kauphallarinnar að Árni hefði selt 200 þúsund hluti fyrir 140,6 milljónir og Linda 150 þúsund hluti fyrir 105,5 milljónir. Áttu viðskiptin sér stað á 703 til 703,3 krónur á hlut.

Í dag var svo aftur tilkynnt um að þau hefðu selt bréf. Seldi Árni 70 þúsund hluti á 49,6 milljónir og Linda 220 þúsund hluti á 155,9 milljónir. Áttu viðskiptin sér stað á genginu 708,5 krónur.

Þegar kaupverð bréfanna er dregið frá söluverði þeirra sést að Linda hefur hagnast um 102 milljónir og Árni um 82 milljónir. Eins og fyrr segir á Linda þar að auki inni bréf vegna kaupréttarins upp á 112,5 milljónir að markaðsvirði og Árni upp á tæplega 6 milljónir.

Bæði eiga þau í dag fleiri hluti í félaginu en áður en þau nýttu sér kaupréttina. Í tilfelli Árna eru það 8.009 hlutir, en í tilfelli Lindu 157.317 hlutir. Fyrir áttu þau líka talsverðan hlut í félaginu og á Árni Oddur í dag 72.643 hluti og 1,952 milljónir í kauprétt. Er eignahluturinn metinn á 52 milljónir miðað við markaðsverð í dag. Auk þess er hann 17,9% hluthafi í Eyri Invest, sem er stærsti hluthafi Marels.

Linda á eftir viðskiptin 339.817 hluti í félaginu, en verðmæti þeirra miðað við markaðsverð eru 243 milljónir. Þá á hún kauprétt að 1,35 milljónum hluta.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK