Mörg stór framkvæmdaverkefni eru í farvatninu

Karl Andreassen, forstjóri Ístaks við Hús íslenskra fræða á Melunum.
Karl Andreassen, forstjóri Ístaks við Hús íslenskra fræða á Melunum. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Það er í mörg horn að líta á stóru heimili og þegar blaðamaður nær sambandi við Karl Andreassen, forstjóra Ístaks, er á hann á milli funda. Fyrirtækið stendur nú m.a. í stórræðum á Melunum þar sem Hús íslenskra fræða er nú risið og fyrirtækið vinnur að fullnaðarfrágangi á því. Í framtíðinni verða mestu dýrgripir íslensku þjóðarinnar varðveittir í rammgerðum hvelfingum hússins. Flestum þætti nóg um að hafa yfirsýn yfir framkvæmd af þessu tagi en ekki Karli.

Ístak reisti höfuðstöðvar sínar á Engjateigi. Þar er nú Sendiráð …
Ístak reisti höfuðstöðvar sínar á Engjateigi. Þar er nú Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Ljósmynd/Ístak

„Við vorum núna í september að hefjast handa við að breikka þjóðveginn um Kjalarnes, þ.e. fyrsta hluta hans. Þá erum við í brúarframkvæmdum og mörgu fleira.“ Um þessar mundir starfa um 320 manns hjá félaginu. Aðstæður í þjóðfélaginu hafa kallað á nokkurn samdrátt en um nýliðin áramót voru starfsmennirnir um 400.

Margt í pípunum

„Það hefur dregið úr framkvæmdum á einkamarkaði en útboðsmarkaðurinn er nokkuð kraftmikill og við sjáum mörg stór verkefni við sjóndeildarhringinn. Það eru t.d. stórir verkþættir varðandi Nýja Landspítalann framundan. Þá eru einnig framundan PPP-verkefni [samvinnuverkefni einka- og opinberra aðila] á borð við tvöföldun Hvalfjarðarganga, Hornafjarðarbrú, jarðgöng í Reynisfjalli og vegur um Öxi.“

Líkt og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu áður eru verkefni Ístaks ekki aðeins bundin við Ísland. Þannig hefur fyrirtækið m.a. gert sig gildandi við stórframkvæmdir á Grænlandi þar sem Karl þekkir mjög vel til en fyrir þremur árum lauk framkvæmdum við nýja stórskipahöfn í Nuuk og var það stærsta fjárfesting í sögu landsins. Var aðkoma Ístaks að verkefninu í samstarfi við danska móðurfélagið sem keypti það fyrrnefnda árið 2015. Það var svo undir árslok í fyrra sem Ístak varð hlutskarpast í útboði á alverki nýrrar skóla- og menningarbyggingar í Nuuk sem kosta mun ríflega 13,5 milljarða króna.

„Verkefninu miðar vel. Við erum búin að steypa mest af botnplötunum fyrir veturinn og höldum svo áfram með verkið eins og hægt er í vetur en gerum eitthvert hlé á framkvæmdunum um skamma hríð og byrjun svo aftur og fullur kraftur næst svo aftur þegar fer að vora í Nuuk en væntanlega verður núna hlé á framkvæmdum yfir vetrarmánuðina og munum við svo halda verkinu áfram þegar vorar.“

Horfa til fleiri verkefna

Er skólabyggingin á Grænlandi stærsta einstaka verkefnið sem Ístak fæst við um þessar mundir en þá hefur fyrirtækið einnig boðið í uppbyggingu nýrrar flugstöðvarbyggingar sem fyrirhugað er að reisa í Nuuk í tengslum við nýjan og stærri flugvöll.

Síðustu tvo áratugi hefur Ístak einnig komið að stórum verkefnum í Noregi og sótti það mörg slík í kjölfar efnahagshrunsins þegar lítið var um framkvæmdir hér á landi. Gerði Ístak m.a. tíu jarðgöng, reisti tvær vatnsaflsvirkjanir og fjölmarga vegi og önnur mannvirki í landinu.

Það er hins vegar ekki svo að starfsfólki Ístaks sé alltaf kalt á höndunum við framkvæmdir í Noregi, á Grænlandi og hér heima. Á árunum 2009-2011 reisti fyrirtækið t.d. 17 hús á Jamaíku og því er ljóst að fyrirtækið sækir verkefni þar sem þau gefast og þar sem hægt er að bjóða í spennandi stórframkvæmdir.

Og Karl segir að Ístak eigi gott með að fóta sig á útboðsmarkaði þar sem hagstæðustu og traustustu boðum er tekið.

„Fyrirtækið er í raun stofnað í tengslum við útboðsmarkaðinn. Það voru feðgarnir Kay og Sören Langvad sem höfðu frumkvæðið ásamt þeim Gunnari Möller, Einari Sigurðssyni, Páli Sigurjónssyni og Jónasi Frímannssyni. Það gerðu þeir í framhaldi af því að Alþingi samþykkti lög um að opinberar framkvæmdir skyldu boðnar út,“ útskýrir Karl og segir að lagasetningin hafi orðið til þess að öflug og sjálfstæð verktakafyrirtæki hafi tekið að mótast hér á landi. Fyrstu stóru verkefni Ístaks voru miðlunarframkvæmdir við Þórisvatn, Vantsfellsveita og stækkun Búrfellsvirkjunar og því var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Í áranna rás hefur svo hvert stórverkefnið rekið annað. Hefur félagið m.a. komið að stórum verkefnum varðandi uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

„Fyrsta aðkoma Ístaks að flugvellinum var fyrsti áfangi flugstöðvarinnar, hinnar svokölluðu Norðurbyggingar sem reist var á árunum 1985-87. Þá unnum við líka að byggingu Suðurbyggingarinnar í samstarfi við Højgaard & Shultz á árunum 2000-2001.“

Þar með var saga Ístaks á vellinum ekki öll því á árunum 2004-2005 vann fyrirtækið að stækkun norðurbyggingarinnar, innanhússfrágangi við stækkun suðurbyggingar á árunum 2014-16 og stækkun tengibyggingar 2017-2019.

„Loks komum við að stækkun á steyptum flughlöðum austan flugstöðvarinnar á árunum 2016-2018,“ segir Karl. Spurður hvort hann telji að Ístak muni koma að frekari uppbyggingu flugvallarins á komandi árum segir hann allt óljóst í þeim efnum þar sem um útboðsverk er að ræða, „en við tökum að sjálfsögðu þátt og ættum að eiga möguleika á fleiri verkum.

Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að uppbyggingin eigi að halda áfram á vellinum þrátt fyrir bakslagið sem nú hefur orðið.“

Ístak hefur komið að fjölmörgum virkjanaframkvæmdum hér á landi, m.a. …
Ístak hefur komið að fjölmörgum virkjanaframkvæmdum hér á landi, m.a. Brúarvirkjun í efri hluta Tungufljóts. Ljósmynd/Ístak

Framfarir í byggingariðnaði

Spurður út í framtíð byggingar- og farmvæmdaiðnaðarins á Íslandi segir Karl að flest bendi til þess að hún sé björt. Mikil framþróun sé að verða á mörgum sviðum sem mikilvægt sé að hagnýta og að Ístak láti ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.

Nefnir hann í því sambandi hina svokölluðu BIM-tækni (e. Building Information Managment).

„Það er tækni sem við nýtum í okkar starfsemi við hönnun og stjórn framkvæmda. Með henni er m.a. hægt að skoða allar teikningar í sýndarveruleika. Það er mikilvægt á kynningarstigi en einnig meðan á hönnun stendur. Þannig er t.d. hægt að nýta tæknina til þess að kanna hvort flóknar járnabindingar passi í steypumót og eins hvort t.d. loftræstibúnaður rekist utan í aðrar lagnir sem búið er að teikna, svokölluð árekstragreining. Þetta getur sparað mikla fjármuni og tryggt að framkvæmdir gangi hnökralaust fyrir sig.“

Þarf að gefa því tíma

Karl ítrekar þó að tækni af þessu tagi sé ekki sjálfsögð viðbót í starfsemi eins og hjá Ístaki. Það taki tíma að vinna hlutina með þessari nálgun og þar megi ekki slá slöku við. Forsenda þess að hún nýtist sem skyldi sé að vanda til verka á því sviði sem öðrum. Einkunnarorð Ístaks eru „frumkvæði í fyrirrúmi“ og það má augljóslega greina á tali Karls þegar hann ræðir sögu félagsins og framtíðartækifæri að þar fer maður sem nýtur augnabliksins. Það hlýtur að vera gefandi að koma að stórum verkefnum sem brúa ár, tengja sveitir landsins saman eða þeim sem rísa upp af grunni til þess að standa um ókomna tíð.

Danskt ævintýri varð íslenskt

Forsögu Ístaks má í raun rekja allt aftur á fjórða áratug síðustu aldar. Þá kom til landsins ungur maður að nafni Kaj Langvad á vegum danska verktakafyrirtækisins Höjgaard & Schultz sem vann að uppbyggingu Ljósafossvirkjunar í Sogi. Var honum einnig falið að hafa umsjón með lagningu hitaveitu milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur og þegar stríðið skall á varð úr að fjölskylda hans dveldi með honum hér á landi. Það var kona hans, Selma Gudjohnsen, og sonur þeirra Sören Langvad. Lauk hann stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og fyrri hluta verkfræðináms við HÍ.
Kaj Langvad stofnaði Ístak ásamt nokkrum Íslendingum árið 1970. Hann …
Kaj Langvad stofnaði Ístak ásamt nokkrum Íslendingum árið 1970. Hann hafði þá komið að framkvæmdum hér á landi frá því á fjórða áratug aldarinnar. Ljósmynd/Ístak

Síðar keypti Kaj múrverksfyrirtækið E.Phil & Sön sem haslaði sér nýjan völl á framkvæmdamarkaði, m.a. við hafnargerð í Danmörku og vatnsaflsvirkjanir hér á landi. Kom Sören að starfseminni með föður sínum og tengdust þeir m.a. byggingu Búrfellsvirkjunar þar sem fyrirtæki þeirra vann að framkvæmdum ásamt hinu sænska SENTAB. Var það gert í gegnum Almenna byggingarfélagið, sem var í raun eiginlegur grunnur að Ístaki.

Sören Langvad ásamt Páli SIgurjónssyni þegar þáverandi höfuðstöðvar Ístaks við …
Sören Langvad ásamt Páli SIgurjónssyni þegar þáverandi höfuðstöðvar Ístaks við Engjateig voru teknar í notkun. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson

Sören Langvad ann mjög ættjörð sinni í norðri og vann ötullega að auknu samstarfi dansks og íslensks athafnalífs. Lét hann sig mjög varða útbreiðslu íslenskrar menningar í Danmörku. Var hann sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1977, stórriddarakrossi árið 1981 og stórriddarakrossi með stjörnu árið 1999.

Fjalla um söguna á Youtube

Ístak hefur gefið út þrjá stutta þætti á Youtube þar sem fjallað er um sögu félagsins og stórframkvæmdir sem það hefur átt aðkomu að á síðustu 50 árum. Þrír þættir hafa nú þegar verið birtir og munu fleiri bætast við á næstunni. Sá fyrsti er aðgengilegur í gegnum hlekk ofar í þessari frétt en hinir tveir hér að neðan.

Í fyrsta þættinum kemur m.a. fram að upphaflega var ákveðið að fyrirtækið myndi heita Þóristak og með vísan til stórframkvæmdarinnar sem var fyrsta viðfangsefni þess við Þórisvatn. Fljótt kom þó í ljós að þeir Danir sem komu að fyrirtækinu og framkvæmdinni áttu mjög óhægt um vik að bera nafn fyrirtækisins fram. Báru þeir nafnið fram sem Thorsdag (fimmtudag). Varð úr að fyrirtækið fékk nafnið Ístak og hefur haldið því síðan.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK