Neytendur notið góðs af tollasamningi við ESB

„Verð á innfluttum kjötvörum og ostum, þar sem tollkvótar hafa …
„Verð á innfluttum kjötvörum og ostum, þar sem tollkvótar hafa stækkað í samræmi við tollasamninginn, hækkaði mun minna en við mátti búast," segir í tilkynningunni. mbl.is/Styrmir Kári

Neytendur hafa notið góðs af tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins og þeirri breyttu aðferð við útboð á tollkvótum sem var tekin upp á árinu.

Þetta kemur skýrt fram í nýrri skýrslu verðlagseftirlits Alþýðusambandsins sem gerð var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) og birt í gær, að því er segir á vefsíðu Félags atvinnurekenda.

„Verð á innfluttum kjötvörum og ostum, þar sem tollkvótar hafa stækkað í samræmi við tollasamninginn, hækkaði mun minna en við mátti búast vegna veikingar krónunnar á tímabilinu desember 2019 til september 2020 og lækkaði í sumum tilvikum. Úrval af búvörum, bæði innfluttum og innlendum, hefur aukist og sýnir það vel kosti þess að innlendur landbúnaður hafi samkeppni frá innflutningi, að mati Félags atvinnurekenda,“ segir í tilkynningunni.

Bent er á að ASÍ rifji upp í sinni skýrslu að ANR hafi samið við verðlagseftirlitið í í lok síðasta árs um gerð verðkannana á innlendum og innfluttum búvörum. Í skýrslunni segir: „Markmiðið með samningnum var að safna gögnum og fylgja þannig eftir þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um tollkvóta í desember 2019. Væntingar standa til að breytingarnar muni skila sér í lægri kostnaði fyrir innflytjendur og lægra verði til neytenda.“

Innflutt grænmeti hækkar meira

Í tilkynningunni kemur fram að innflutt grænmeti hækki talsvert meira en kjöt- og mjólkurvörur. Það skýrist annars vegar af gengisveikingu og hins vegar á því að innkaupsverð á grænmeti hafi hækkað vegna vandkvæða við tínslu, pökkun og flutninga vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki hafi heldur orðið hagstæðar tollabreytingar á grænmeti.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

„Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart. Neytendur njóta góðs af tollasamningnum við Evrópusambandið, sem hefur stuðlað að því að halda niðri verði á innfluttri matvöru þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í tilkynningunni

„Breytt aðferð við útboð á tollkvótum gagnast neytendum jafnframt í flestum tilvikum. Þá er fagnaðarefni að sjá að aukið úrval af innfluttum búvörum hvetur innlenda framleiðendur líka til að gera betur. Í ljósi þessara niðurstaðna verður að skoða frumvarp landbúnaðarráðherra um að breyta útboðum á tollkvótum til fyrra horfs og kröfur hagsmunaaðila í landbúnaðinum um að segja upp tollasamningnum við ESB,“ bætir hann við. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK