Leggja til að hefja sölumeðferð á Íslandsbanka

Íslandsbanki
Íslandsbanki mbl.is/Hjörtur

Bankasýsla ríkisins lagði fram í dag tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. Lagði stofnunin einnig fram samhliða minnisblað til stuðnings tillögunni. Þetta kemur fram í frétt á vef bankasýslunnar sem birtist nú fyrir stundu. 

Tillaga bankaskýrslunnar er svohljóðandi: Að selja eignarhluti í Íslandsbanka hf. þar sem stefnt verður að skráningu eignarhluta á skipulegan verðbréfamarkað innanlands í kjölfar almenns útboðs. 

Í tillögu bankasýslunnar til ráðherra segir að tillagan sé lögð fram í samræmi við ákvæði i. og j. liðar 4. greinar laga nr. 88/2009 um Bankasýslu ríkisins. Er einnig vísað til 1. greinar laga nr. 155/2012 þar sem ráðherra er gert heimilt að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka hf. að fenginni fjárheimild í fjárlögum og að fenginni tillögu frá bankasýslu ríkisins.

Heimild fyrir sölunni fékkst í fjárlögum fyrir árið 2020, og er sambærilega heimild að finna í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021. Eru því skilyrði laganna uppfyllt með tillögu bankasýslunnar. 

Þróun á fjármálamörkuðum mun betri en vonir stóðu til 

Í minnisblaði sem bankasýslan leggur fram með tillögunni er nánar farið út í rökstuðning fyrir henni. Er þar rakið að stofnunin hafi fyrst lagt fram tillögu hinn 4. mars síðastliðinn um að selja að lágmarki 20% hlut í Íslandsbanka hf. í samhliða söluferði, en að kórónuveirufaraldurinn og breytingar á efnahagsmálum vegna hans hafi stofnunin ákveðið að afturkalla þá tillögu 16. mars. 

Segir í minnisblaðinu að frá afturköllun tillögunnar hafi þróun á fjármálamörkuðum og afkomu Íslandsbanka aftur á móti verið mun betri en vonir stóðu til um miðjan mars mánuð. „Frá 16. mars til 16. desember sl. hafa hlutabréf í íslenskum félögum (vísitala aðallista) hækkað um helming (50,0%) og hlutabréf í evrópskum bönkum (STOXX Euro 600 banka vísitalan) hækkað um tæpan þriðjung (32,4%),“ segir í minnisblaðinu. 

Þá hafi farsæl hlutabréfaútboð með mikilli þátttöku almennings átt sér stað á tímabilinu og afkoma Íslandsbanka það sem af er ári verið betri heldur en álykta megi af sviðsmyndaspá Seðlabankans í júlí sl. 

„Í ljósi þessarar þróunar telur Bankasýsla ríkisins rétt að leggja fram tillögu um sölumeðferð á þessari stundu og stefna að frumútboði hluta, en ekki beinni sölu til hliðar eins og tillaga stofnunarinnar frá 4. mars sl. hljóðaði,“ segir í minnisblaðinu.  

Þá segir í minnisblaðinu að bankasýslan telji ekki rétt á þessari stundu að festa stærð þess eignarhluta sem bjóða eigi fram til sölu í útboðinu, þar sem áætluð eftirspurn fjárfesta muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir fjárfestakynningar undir lok söluferlisins.

Þá verði einnig ljósara hver afkoma bankans sé, og segir í lok minnisblaðsins að verði þróunin neikvæð, þannig að hvorki fáist ásættanlegt söluverð fyrir eignarhlutina né arðgreiðsla, gæti Bankasýsla ríkisins lagt til við ráðherra að hverfa frá sölu og stofnunin í framhaldinu ráðast í viðeigandi breytingar hjá bankanum.

Tillaga bankasýslunnar til ráðherra.

Minnisblað bankasýslunnar til ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka