Landsréttur úrskurðar Skúla í vil

Skúli Mogensen
Skúli Mogensen mbl.is/RAX

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. nóvember síðastliðnum í máli Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW air, og Air Lea­se Corporati­on (ALC). Niðurstaða Héraðsdóms og Landsréttar er því sú að öllum kröfum ALC á hendur Skúla sé vísað frá dómi.

Þá er ALC skylt að greiða Skúla 350.000 krónur í málskostnað, 146.000 krónum minna en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði kveðið á um.

Skúli hafði krafist þess að gagnsök sem ALC höfðaði 12. mars síðastliðinn yrði vísað frá dómi hvað hann varðaði. 

WOW air hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. mars árið 2019. Félagið leigði flugvél af tegundinni Airbus A321 með skráningarnúmerið TF-GPA hjá ALC. Við gjaldþrot WOW air leitaðist ALC við að ná umráðum hennar af Isavia, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Isavia neitaði þá að afhenda vélina. Ástæðan var sú að fyrirtækið vildi aftra för vélarinnar til tryggingar greiðslu skulda WOW air við Isavia. Loks afhenti Isavia vélina eftir að þrjú dómsmál höfðu verið rekin, þar af tvö sem komu til kasta Hæstaréttar. 

Málatilbúnaður ALC vanreifaður og illa rökstuddur

Í kjölfarið, eða hinn 6. janúar í fyrra, stefndi ALC Skúla og íslenska ríkinu og krafðist þess að sameiginlega myndu þau greiða sem nemur um einum og hálfum milljarði íslenska króna ásamt vöxtum og dráttarvöxtum vegna fjártjóns sem ALC taldi sig hafa orðið fyrir vegna úrskurðar héraðsdóms 17. júlí 2019 um að ALC væri heimilt að fá umrædda flugvél tekna frá Isavia og aðfarargerðar sýslumanns degi síðar. 

Þá greip ALC til gagnstefnu sem birt var 12. mars sl., en það er málið sem um ræðir hér. Þar var þess krafist að íslenska ríkið og Skúli greiddu ALC sem nemur um 350 milljónum íslenskra króna.

Úr niðurstöðu héraðsdóms má lesa að málatilbúnaður ALC hafi verið að mörgu leyti vanreifaður og illa rökstuddur. Héraðsdómur telur að málsgrundvöllurinn í heild sé ekki nægilega skýr og því gæti það komið niður á möguleikum Skúla til að halda uppi vörnum. Því var fallist á kröfu Skúla um frávísun málsins. 

Úrskurður Landsréttar í heild sinni

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK