Hyggst láta verkin tala

Skúli Mogensen hyggur á talsverða uppbyggingu í Hvammsvík ásamt foreldrum …
Skúli Mogensen hyggur á talsverða uppbyggingu í Hvammsvík ásamt foreldrum sínum. mbl.is/RAX

Skúli Mogensen athafnamaður fyrirhugar margháttaða uppbyggingu í Hvammsvík í Hvalfirði.

Fjallað var ítarlega um áformin í greinargerð vegna breytinga á deiliskipulagi Hvamms og Hvammsvíkur. Um var að ræða tillögu sem var skilað til Kjósarhrepps en byggingarsvæðið nær yfir 2,8 hektara svæði í landi Hvammsvíkur í Hvalfirði, Kjósarhreppi.

Sagði þar að fyrirhugað væri að hlaða heitar sjóbaðslaugar og byggja upp aðstöðu fyrir gesti baðanna, „svo sem búningsaðstöðu, veitingasölu og bílastæði“. Búningsaðstaðan yrði fyrir 70 manns en drög að henni má sjá á grafinu hér til hliðar.

Selja á léttar og aðkeyptar veitingar í búningsaðstöðuhúsinu.

Hvammsvík er undraverður staður í utanverðum Hvalfirði.
Hvammsvík er undraverður staður í utanverðum Hvalfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Gætu fengið leyfi í febrúar

Sveitarstjórn Kjósarhrepps samþykkti 6. janúar að auglýsa gildistöku á skipulaginu. Umsagnaraðilum verður send niðurstaðan.

Breytingin á skipulaginu fer síðan til umsagnar skipulagsstofnunar sem hefur þrjár vikur til að gera athugasemdir. Síðan verður hún auglýst í B-deild stjórnartíðinda. Eftir birtinguna hjá B-deild er kærufrestur sem gildir í einn mánuð.

Með þennan feril í huga gætu eigendur Hvammsvíkur mögulega hafið framkvæmdir í febrúar.

Töluverðu kostað til

Af lýsingum að dæma hefur töluverðu fé þegar verið kostað til endurbyggingar mannvirkja. Meðal annars er búið að endurgera hlöðu og fjós sem sagt er fjölnota rými sem verði „nýtt undir reglulegar listsýningar, samkomur, veislur og viðburði svo sem jóga- og svitahof“.

„Fyrirhugað er að fjölga útilistaverkum á svæðinu þannig að með tíð og tíma verður einstakur útilistaverkagarður um alla jörðina sem gestir og gangandi geta notið á ferð sinni um svæðið. Lögð verður áhersla á að varðveita og merkja enn frekar allar helstu minjar á svæðinu og stika út gönguleiðir þannig að ferðamenn geti gengið um svæðið og fræðst um sögu Hvammsvíkur allt frá landnámi til dagsins í dag og náttúru og dýralíf svæðisins,“ segir í greinargerðinni um áformin.

Taka upp aðgangsstýringu

Þótt svæðið verði öllum opið þurfi að takmarka fjölda gesta með aðgangsstýringu, eins og það er orðað, með því að rukka inn á bílastæði.

Hluti af því að tryggja gestum gott næði er að bílastæði verða um 200 metra frá sjóböðunum við fjöruna.

„Gert er ráð fyrir að um 10 manns muni starfa á svæðinu við að taka á móti gestum, við sýningarsalinn/hlöðuna, við afgreiðslu við baðstaðinn, að leiðsegja um svæðið og aðra þjónustu,“ segir í greinargerðinni. Athygli vekur að í aðalskipulagi Kjósarhrepps, 2017-2029, er gert ráð fyrir „byggingu hótels, með gistingu fyrir allt að 50 gesti ásamt veitingastað, ylströnd, aðstöðu til sjósunds og gerð bátaskýlis. Einnig þjónustu við golfvöll í Hvammsvík“.

Bendir þetta til að Skúli hafi haft uppi áform um enn meiri uppbyggingu áður en hann þurfti að rifa seglin sem eigandi og forstjóri WOW air.

Áformað er að hlaða allt að sjö heitar og kaldar sjóbaðslaugar sem fyllast og tæmast með flóði og fjöru.

Ekki verður notast við hreinsikerfi heldur mun reksturinn byggjast á sírennsli vatns og vatnsskiptum fyrir tilstuðlan flóðs og fjöru, að því er segir í greinargerðinni. Þ.e.a.s. jarðvarminn mun hita laugarnar en sjórinn kæla og hreinsa jafnóðum.

Skúli kvaðst í samtali við ViðskiptaMoggann ekki mundu tjá sig frekar um málið að sinni. Þar með talið um mögulegt leyfi fyrir hótelrekstur. Hann vilji láta verkin tala.

Kaupverðið 200 milljónir

Greint var frá því í október 2011 að Skúli Mogensen, þá fjárfestir og aðaleigandi MP banka, hefði keypt jarðirnar Hvamm og Hvammsvík af Orkuveitunni á 155 milljónir kr.

Sex árum síðar, nánar tiltekið 7. desember 2017, er móttekið til þinglýsingar tryggingarbréf vegna Hvammsvíkur. Með því veðsetti eigandinn, Kotasæla ehf., félag Skúla, eignina „til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum“ Kotasælu við Arion banka. Umrætt veð væri til tryggingar fjárskuldbindingu upp á 250 milljónir sem bundin var vísitölu neysluverðs.

Næst dró til tíðinda þegar Arion banki heimilaði Kotasælu í september síðastliðnum að selja eignir með þremur fastanúmerum í Hvammsvík, í samræmi við kauptilboð félagsins Flúða ehf. Jafnframt að veðsetja eignirnar til tryggingar veðskuldabréfi útgefnu af Flúðum til Arion banka að fjárhæð 160 milljónir króna. Þá skyldu Flúðir ábyrgjast að greiða 35 milljónir beint á reikning bankans en félagið er í eigu föður Skúla. Gefið var út veðskuldabréf að fjárhæð 160 milljónir til 24 mánaða á 3,79% vöxtum.

Samkvæmt afsali í október var kaupverð sagt 200 milljónir og að fullu greitt. Engar veðskuldir hvíli á hinu afsalaða.

Samkvæmt ársreikningi Flúða 2019 voru eignir þá 11,7 milljónir svo ljóst má vera að félagið er að færa út kvíarnar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK