3,6 milljarða hagnaður Landsnets

Landsnet skilaði 3,6 milljarða hagnaði á árinu.
Landsnet skilaði 3,6 milljarða hagnaði á árinu. mbl.is/Þorsteinn

Hagnaður Landsnets á síðasta ári nam 27,3 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 3,6 milljörðum króna. Lækkaði hagnaðurinn um 10%, en árið 2019 var hann 30,3 milljónir dala.

Tekjur félagsins lækkuðu um rúmlega 10 milljónir dala milli ára og voru 130,5 milljónir dala í fyrra. Á sama tíma lækkuðu einnig rekstrargjöld, en lækkun þeirra nam 7% og var 83,9 milljónir dala, samanborið við 90,15 milljónir árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var 46,6 milljónir dala og lækkaði um 3,6 milljónir milli ára. Handbært fé félagsins við árslok nam 25,8 milljónum dala og lækkaði um 5 milljónir milli ára. Eigið fé félagsins um áramót nam 404,8 milljónum dala og hækkaði um 13 milljónir milli ára. Arðsemi eigin fjár var 6,9% á síðasta ári samanborið við 7,4% árið áður.

Í tilkynningu til Kauphallar vegna uppgjörsins er haft eftir Guðlaugu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, að árið 2020 hafi verið ár áskorana, framkvæmda og stöðugleika. Segir hún ánægjulegt að rekstrarniðurstaðan hafi verið góð og að sjá stöðugleika þrátt fyrir að árið hafi einkennst af erfiðum veðrum og heimsfaraldri. Segir hún að faraldurinn hafi haft óveruleg áhrif í ársreikningi.

„Þetta var stærsta framkvæmdaár félagsins frá upphafi og við erum stolt af því að hafa náð markmiðum þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Framkvæmdir gengu vonum framar þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgdu Covid-19-faraldrinum, þar sem tekist var á við einstakar tafir með breyttri forgangsröðun verkefna,“ er haft eftir henni í tilkynningunni.

Stærstu fjárfestingaverkefni ársins hjá félaginu voru Kröflulína og Hólasandslína sem liggja frá Fljótsdalsstöð til Akureyrar. Einnig var unnið í spennuhækkun á Austfjörðum og tengingu Sauðárkróks og Varmahlíðar. Þessi flutningsvirki voru ekki komin í notkun á árinu 2020 og eru færð meðal flutningsvirkja í byggingu í ársreikningi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK