Uppsagnir hjá Skeljungi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Skeljungs hf. samþykkti í dag nýtt skipurit, sem hefur í för með sér að stöðugildum fækkar um 20 hjá félaginu. Markmiðið er að „einfalda starfsemina, stytta boðleiðir og hagræða í rekstri,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Gera má ráð fyrir að þar með missi að minnsta kosti tuttugu manns starfið hjá félaginu, ef ekki fleiri, ef gengið er út frá því að einhver stöðugildanna hafi ekki verið mönnuð af fólki í fullu starfi.

Breytingarnar taka til allra sviða félagsins og eru sagðar gerðar til að bregðast við því rekstrarumhverfi sem félagið býr við. Afkoma félagsins var töluvert lakari árið 2020 en 2019 og hagnaður dróst saman um 44%.

Skemmst er frá því að segja að Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir varð stjórnarformaður í Skeljungi í mars í fyrra og fjárfestingafélag hans bætti í janúar við sig 90 milljónum hluta í félaginu. Þar með er það komið með 45,22% eignarhlut og er langstærsti einstaki eigandinn.

Jón Ásgeir Jóhannesson er farinn að láta aftur að sér …
Jón Ásgeir Jóhannesson er farinn að láta aftur að sér kveða í íslensku viðskiptalífi, eins og hefur orðið áberandi á síðustu árum.

Meginbreytingarnar á skipuritinu eru sem segir í tilkynningu til fjárfesta:

Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, mun taka við dreifingu eldsneytis, sem áður tilheyrði rekstrarsviði, ásamt því að sinna áfram sölu til fyrirtækja í sjávarútvegi, flugi og landi, ásamt vörusölu og þjónustuveri.

Már Erlingsson verður framkvæmdastjóri innkaupa og birgðahalds í stað framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Karen Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, mun taka við verkefnum framkvæmdadeildar, ásamt því að sinna áfram þjónustustöðvum Orkunnar, Kvikk, 10-11 og Extra.

Gróa Björg Baldvinsdóttir, sem áður leiddi lögfræðisvið ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn, mun verða framkvæmdastjóri stjórnarhátta og gæðamála. Mannauður og menning, gæða-, öryggis- og umhverfismál sem áður tilheyrðu fjármálasviði færast til Gróu, sem og stjórnarhættir og stefna.

Ólafur Þór Jóhannesson mun áfram leiða fjármálasvið en undir því sviði tilheyra móttaka, reikningshald og upplýsingatækni. Auk þess mun Ólafur Þór gegna stöðu staðgengils forstjóra en áður gegndi Már Erlingsson þeirri stöðu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK