Fjögur verkefni fengu lán frá Svanna

Fjögur verkefni fengu lán frá Svanna.
Fjögur verkefni fengu lán frá Svanna. Ljósmynd/Aðsend

Fjögur verkefni fengu lán frá Svanna - lánatryggingasjóði kvenna í vorúthlutun sjóðsins, eða Fæðingarheimili Reykjavíkur, Justikal, Eylíf og FÓLK.

Í vor bárust sjóðnum 12 umsóknir og alls var sótt um lán að fjárhæð rúmlega 84 milljónir króna, að því er kemur fram í tilkynningu.

Svanni hefur það að markmiði að efla konur í fyrirtækjarekstri og auka aðgengi þeirra að fjármagni til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.  Sjóðurinn er í eigu forsætisráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Hann á í góðu samstarfi við Landsbankann sem veitir lánin en bankinn hefur verið bakhjarl sjóðsins frá stofnun hans. 

„Lánið hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur en fyrirtæki eins og okkar sem stundar vöruþróun, oft og tíðum með nýjum aðferðum og hráefnum, þarf fjármagn til að koma undir sig fótunum. Það er mjög jákvætt og mikilvæg traustsyfirlýsing að Landsbankinn og Svanni séu tilbúin að styðja okkur í að byggja upp vörur sem taka útgangspunkt í sjálfbærni og hringrás hráefna,“ segir Ragna Sara Jónsdóttir, eigandi Fólks sem er íslenskt hönnunarmerki sem þróar, markaðssetur og selur hönnun eftir íslenska hönnuði, í tilkynningunni.

Umsóknarfrestur vegna lána sem verða veitt í haust er til 15. september næstkomandi og er sótt um rafrænt á heimasíðu sjóðsins en þar má finna frekari upplýsingar um lánin.

Úthlutun lána fer fram tvisvar á ári og er hægt að fá lán á bilinu þrjár til tíu milljónir króna og eru lánin alla jafna til 5 ára. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK