Icelandair eykur umsvif sín

Icelandair Group hóf að auka umsvif sín á ný í öðrum ársfjórðungi í takt við aukna eftirspurn eftir flugi og ferðalögum. Þá styrktist lausafjárstaða félagsins verulega vegna mikillar aukningar í bókunum á flugi á seinni helmingi ársins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group. 

„Handbært fé frá rekstri nam 8,2 milljörðum króna (65,0 milljónum dala) samanborið við neikvætt handbært fé frá rekstri að fjárhæð 12,2 milljarðar króna (96,8 milljónir dala) á sama fjórðungi í fyrra sem er aukning um 20,4 milljarða króna (161,8 milljóna dala). Lausafjárstaða félagsins í lok fjórðungsins nam 45,6 milljörðum króna (362,5 milljónum dala), þar af handbært fé og lausafjársjóðir að fjárhæð 24,0 milljarðar króna (190,5 milljónir dala), sem er aukning um 10,1 milljarða króna (80,6 milljónir dala) í fjórðungnum,“ segir í tilkynningunni. 

Aukning í umsvifum í millilandaflugi Icelandair og kórónuveirufaraldurinn höfðu veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu fjórðungsins.

„Félagið hóf flug á ný til 15 áfangastaða og fjöldi brottfara á viku jókst úr 28 í apríl í 160 í júní. Talsverður kostnaður felst í því að hefja flug á ný og er því framlegð af fyrstu flugum yfirleitt minni en þegar flugáætlun hefur gengið í ákveðinn tíma. Sætanýting jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á fjórðunginn þrátt fyrir mikla aukningu á tíðni fluga. Þá féll töluverður rekstrarkostnaður til vegna undirbúnings félagsins fyrir metnaðarfulla flugáætlun til að mæta aukinni eftirspurn á seinni hluta þessa árs. Meðal annars er um að ræða kostnað við að taka vélar aftur í rekstur eftir mánuði í geymslu, innleiðingu þriggja nýrra Boeing 737 MAX véla inn í flota félagsins, þjálfun starfsfólks og markaðsmál. Þessi fjárfesting mun skila sér í auknum tekjum síðar á árinu. EBIT var neikvæð í fjórðungnum um 7,8 milljarða króna (62,2 milljónir dala), og batnar um 4,5 milljarða króna (35,6 milljónir dala) á milli ára. Tap nam 6,9 milljörðum króna (54,9 milljónum dala) samanborið við 11,4 milljarða króna (90,8 milljónir dala) á sama tíma í fyrra,“ segir í tilkynningu Icelandair.

Þar kemur fram að tekjur af fraktflutningum félagsins hafi aukist um 35% á milli ára en félagið hefur viðhaldið svipuðu flutningsmagni og fyrir Covid um nokkurt skeið. Horfur í fraktflutningum eru áfram góðar.

„Flugframboð Icelandair í júlí verður um 43% af framboði félagsins í júlí 2019 á meðan framboð á öðrum ársfjórðungi var einungis 15% af framboði á sama tíma 2019. Sætanýting í júlí er áætluð um 70% samanborið við 47% í öðrum ársfjórðungi 2021. Miðað við núverandi horfur er gert ráð fyrir að flugframboð muni aukast enn frekar í ágúst og sætanýting sömuleiðis. Lokaniðurstaða ræðst þó af þeim áhrifum sem þróun faraldursins og ferðatakmarkanir hafa á eftirspurn,“ segir í tilkynningu Icelandair.

Þar er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair:

 „Viðspyrnan er hafin og við erum að auka flugið jafnt og þétt í hverri viku. Þessi aukning í umsvifum sem og áframhaldandi áhrif af Covid-19 faraldrinum höfðu veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu annars ársfjórðungs en mikil aukning bókana fyrir flug á seinni hluta ársins hafði jákvæð áhrif á handbært fé frá rekstri, sem nam 24 milljörðum króna á fjórðungnum. Þetta er er gríðarlegur viðsnúningur frá sama tíma í fyrra. Við erum þakklát fyrir það traust sem viðskiptavinir á öllum mörkuðum okkar sýna félaginu og Icelandair vörumerkinu.

 Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað og miðað við sterka bókunarstöðu höfum við sett fram metnaðarfulla flugáætlun á seinni helmingi ársins. Við höldum þó áfram að stýra leiðakerfinu eftir því hvernig faraldurinn og ferðatakmarkanir þróast en ákveðinnar óvissu gætir enn vegna stöðu faraldursins og hertra ferðatakmarkana á landamærum Íslands. Við bindum vonir við að Bandaríkin muni opna fyrir ferðalög frá Evrópu á þriðja ársfjórðungi. Þá er uppgangur í fraktflutningum og eftirspurn eftir leiguflugi einnig að aukast á seinni helmingi ársins sem styður við tekjuöflun og sjálfbæran vöxt félagsins til framtíðar.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki og samstarfsaðilum okkar fyrir frábært starf, sveigjanleika og samheldni sem hefur verið lykillinn að því að geta sett leiðakerfi okkar aftur af stað á svo skömmum tíma í krefjandi aðstæðum.“

Vefstreymi á kynningu á uppgjöri annars ársfjórðungs verður haldið á morgun, föstudaginn 23. júlí kl. 8.30 og er það aðgengilegt á heimasíðu Icelandair Group. Þar munu Bogi og Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstrarniðurstöður og svara spurningum.

„Rafrænn hluthafafundur félagsins verður einnig haldinn á morgun, föstudaginn 23. júlí á Hilton Nordica kl. 16 þar sem teknar verða fyrir tillögur um hlutafjáraukningu í tengslum við aðkomu Bain Capital að félaginu.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK