Batinn gæti orðið hraðari en í stefndi í janúar

Stefnt gæti í að ferðamenn verði nokkur hundruð þúsund fleiri …
Stefnt gæti í að ferðamenn verði nokkur hundruð þúsund fleiri í ár en spáð var fyrir um mánuði síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í lok janúar setti Íslandsbanki fram þjóðhagsspá sína þar sem gert var ráð fyrir því að 1,1 til 1,2 milljónir ferðamanna myndu sækja Íslands heim á þessu ári. Nú stefnir hins vegar í að ferðamennirnir gætu orðið talsvert fleiri, en ferðatölur utan úr heimi og líka nýjar upplýsingar um bókunarstöðu hótela hér á landi sýna að fyrri spár gætu hafa verið nokkuð hóflegar. Gæti jafnvel munað nokkur hundruð þúsundum yfir árið sem jafnvel gæti skilað sér óbeint inn í kjaraviðræður á árinu.

„Spáin hafi verið hófleg frekar en rífleg“ 

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í samtali við mbl.is að á þessum stutta tíma hafa orðið djúpstæð breyting og horfurnar batnað umtalsvert. „Það eru miklar líkur á að spáin hafi verið hófleg frekar en rífleg,“ segir hann.

Fyrir viku síðan setti Jón Bjarki einmitt af þessum ástæðum fram sviðsmynd þar sem þessari nýju stöðu var velt upp og miðað var við að ferðamenn yrðu 1,5 milljónir í stað 1,1 til 1,2 milljóna. Jón Bjarki segir að þar sé í raun horft til þess að fjöldinn sem hafði verið spáð árið 2023 verði á þessu ári. Ef það gengi eftir hefði það talsverð áhrif á efnahag og vinnumarkað, en það myndi þýða að útflutningstekjur myndu aukast um tæp 24% milli ára í stað 19% sem sett var fram í þjóðhagsspánni. Áhrif á neyslu, fjárfestingu og innflutning myndi jafnframt skila 5,3% hagvexti í stað 4,7% og atvinnuleysi myndi hjaðna nokkuð hraðar en ella og yrði að jafnaði 4% í stað 4,5% sem áætlað var í þjóðhagsspánni. Einnig myndi viðskiptaafgangur verða 2,8% í stað 1,8% af landsframleiðslu og krónan gæti styrkst sem gæti svo haldið aftur af verðbólgu þegar fram í sækir.

Í dag fjallaði Fréttablaðið meðal annars um að útlit sé fyrir því að fjöldi ferðamanna á árinu nái um 70% af því sem fjöldinn var árið 2019, en þá sóttu um tvær milljónir landið. Var vísað til nýtingarhlutfalls hótela sem væri nú 70% á fyrstu mánuðum ársins, en áður hafði verið gert ráð fyrir um 50% nýtingu.

Stefnir í hraðari bata en í áætlað var í ársbyrjun

Jón Bjarki segir nú talsverðar líkur á að þessi 1,5 milljóna sviðsmynd rætist frekar en hóflegri spáin sem kom fram í janúar. Hann slær þó varnagla við þróunina og segir aðstæður og forsendur alltaf geta breyst hratt. Vísar hann til þess að faraldurinn sé ólíkindatól og það geti slegið í bakseglin aftur, en staðan núna sé vissulega ánægjuefni. „Það stefnir í að við gætum verið að ná batanum hraðar en við lögðum upp með í ársbyrjun,“ segir hann.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Jón Bjarki bendir þó á að nokkur breyting hafi orðið á ferðahegðun fólks sem geti bæði haft áhrif í jákvæða eða neikvæða átt. Fólk bóki nú með skemmri fyrirvara en áður og sé óhrætt við að færa til bókanir og breyta áætlunum með stuttum fyrirvara. Þá hafi fólk vanist auknum sveigjanleika með afbókanir og það sé farið að spila inn í.

Gæti styrkt stöðu verkalýðshreyfingarinnar

Þessi þróun þar sem stefnir í aukinn fjölda ferðamanna gæti þó reynst talsverð áskorun. Jón Bjarki bendir á að það þurfi að manna hótel, skaffa bílaleigubíla og passa upp á aðra innviði ferðaþjónustunnar. Þessi áskorun geti svo haft áhrif á vinnumarkaðinn, sérstaklega í sumar. „Vinnumarkaðurinn gæti þá einkennst af skorti frekar en hitt,“ segir hann og bætir við: „Fáir gerðu ráð fyrir ári eða hálfu ári síðan að þessi staða yrði upp á teningnum, að það þyrfti að fara að leita að starfsfólki.“

Framundan eru kjaraviðræður og spurður hvort þessi staða breyti einhverju um samningsstöðuna segir Jón Bjarki það líklegt. „Það styrkir stöðu verkalýðshreyfingarinnar ef staðan á vinnumarkaðinum er full atvinna. Ef launþegahreyfingin kemur að borðinu með þann bakgrunn að það vantar fólk frekar en að það vanti störf gæti samningsstaða þeirra því orðið sterkari.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK