Stofna skóla í stafrænni markaðssetningu

Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara.
Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara.

Auglýsingastofan Sahara hefur stofnað Sahara Academy sem hefur kennslu 10. júlí næstkomandi og útskrifar í lok sumars tíu sérfræðinga í stafrænni markaðssetningu. Að sögn Davíðs Lúthers Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Sahara, var ákveðið að setja skólann á fót vegna þess að mikil vöntun er á starfsfólki með verklega færni í stafrænni markaðssetningu.

„Það hefur dálítið gleymst hjá menntastofnunum að leggja áherslu á þennan praktíska og „hands on“-hluta af stafrænni markaðssetningu,“ segir Davíð Lúther.

„Þó að fræðilegu hliðinni sé vel sinnt þá er almennt ekki verið að kenna verklag og hæfni í til dæmis auglýsingakerfum Facebook og Google.“

Það sé hins vegar mikil eftirspurn eftir starfsfólki með þessa sérfræðiþekkingu, bæði á markaðsdeildum fyrirtækja og auglýsingastofum.

„Þannig að við ákváðum bara að ganga í málið sjálf og stofnuðum Sahara Academy sem sumarskóla til að byrja með,“ segir Davíð Lúther. Hann segir að Sahara hafi allt frá stofnun stofunnar tekið inn marga starfsnema frá háskólum landsins. Því hafi stofnun Sahara Academy hafi því verið rökrétt skref fram á við. 

„Þeir hafa nær allir haft orð á því að það að fá að vinna með raunveruleg verkefni og sjá hvernig hlutirnir eru gerðir í „praktík“, hafi verið gríðarlega lærdómsríkt,“ segir Davíð Lúther.

Skólinn verður settur 10. júlí og stendur til 29. ágúst og kennt verður 9-5 virka daga. Sahara Academy tekur inn tíu nemendur og verður án skólagjalda á sínu fyrsta starfsári. Freyr Guðlaugsson hefur verið skipaður skólastjóri en hann hefur ríflega tólf ára reynslu í gagna- og markhópagreiningu, skipulagningu herferða og stefnumótun í stafrænni markaðssetningu hjá fyrirtækjum eins og Landsbankanum, dk hugbúnaði í Bretlandi, JOT Internet Media og TravelClick.

„Hann er einn helsti íslenski sérfræðingurinn á þessu sviði og við vorum mjög heppin að hann hafði tíma og gat komið til Íslands til að taka að sér verkefnið,“ segir Davíð Lúther. Freyr mun móta og leiða kennsluna í miklu samstarfi við starfsfólk Sahara, en innan stafrænu deildar stofunnar eru tæplega 20 sérfræðingar.

Meðal þess sem nemendur eiga að kunna skil á eftir sumarið eru stafrænar herferðir hjá Facebook, Instagram og Youtube, Google Display Ads, Analytics, innræn markaðssetning, skýrslugerð og eftirfylgni. Í lokin mun svo nemendum standa til boða að gangast undir viðurkennd próf frá Facebook og Google Ads sem vottar þau sem sérfræðinga. Þá verður þeim nemendum sem standa sig best boðin vinna hjá Sahara að útskrift lokinni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK