92 þúsund farþegar í september

Flugvél Play.
Flugvél Play. Ljósmynd/Aðsend

Play flutti 92.181 farþega í september, sem eru færri farþegar en í ágúst þegar flugfélagið flutti 109.956 farþega. Sætanýting í september var 81,5% miðað við 86,9% í ágúst og 87,9% í júlí.

„Sögulega er september nokkuð krefjandi mánuður í fluggeiranum. Minni eftirspurn er eftir fjölskyldu- og skemmtiferðum enda skólarnir byrjaðir og fólk komið aftur í vinnu eftir sumarfrí. Markaðurinn verður því háðari viðskiptaferðum. Á sama tíma hefur tengiflugsleiðakerfið mjög góð áhrif á reksturinn, þar á meðal á nýtingu flotans og á lækkandi einingakostnað. Stundvísi var 86% í september,“ segir í tilkynningu.

Fyrsta flugið til Liverpool

Jómfrúarflug Play til Liverpool John Lennon-flugvallar var í morgun. Þangað verður flogið tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum. Nú geta farþegar Play því flogið á milli Liverpool og Íslands og fjögurra áfangastaða Play í Bandaríkjunum. Þá hóf flugvélagið miðasölu til Porto í Portúgal í gær. Áætlunarflug hefst í apríl 2023 og flogið verður tvisvar í viku. Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélag býður beint flug á milli Íslands og Porto.

Meira en þrjú þúsund sóttu um

Í byrjun september auglýsti Play eftir 150 flugliðum og 55 flugmönnum. Viðtökurnar létu ekki á sér standa og yfir þrjú þúsund manns sóttu um auglýstar stöður.

„Við erum nokkuð ánægð með sætanýtinguna fyrir septembermánuð enda mánuður sem alla jafna er krefjandi í fluggeiranum. Þá eru vetrarmánuðirnir sem fram undan eru jafnframt venjulega krefjandi fyrir flugfélög en salan hjá okkur hefur hins vegar verið sterk síðustu vikur eftir rólegt tímabil síðsumars. Við höldum því áfram á okkar vegferð; bætum við áfangastöðum, flugvélum og starfsfólki fyrir næsta sumar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK